Thursday, December 27, 2012

Opið í dag og næstu daga

Opið er hjá okkur í dag til klukkan 18.00. Fótbolti var spilaður hér upp úr hádegi og svo hefur fólk aðeins verið að kíkja í laugina sem er 28°C í dag. Næstu daga er opið sem hér segir:

28. des: 12-18.00
29. des: 12-18.00
30. des: 12-18.00
31. des: 10-14.00
01. jan: LOKAÐ!

Minnum á að fótbolti er spilaður milli kl. 12 og 14.00 alla þessa daga.

Kveðja, forstöðumaður

Thursday, December 20, 2012

Ljósmyndasýning Mývarga

Mývargar komu og hengdu upp myndir

Sumarið 2012 tóku unglingadeildirnar Mývargar í Mývatnssveit og Náttfari á Húsavík á móti 16 ungmennum frá DLRG Neumarkt í Þýskalandi. Við þetta tilefni var víða farið og ýmislegt brallað. Að sjálfsögðu voru myndavélar við hendina og allt samviskusamlega "documenterað". Í kjölfarið var sett upp ljósmyndasýning sem nú er hægt að skoða hjá okkur í íþróttamiðstöðinni. Áður voru myndirnar til sýnis á Húsavík en fara svo til Reykjavíkur og enda í Þýskalandi. Verkefnið er m.a. styrkt af Evrópu unga fólksins.

Allir þeir sem gera sér sérstaklega ferð í ÍMS til að skoða myndirnar fá konfektmola.

Kveðja, Forstöðumaður

Wednesday, December 19, 2012

Jólatilboð


Það eru hettupeysudagar hjá okkur í ÍMS. Eigum til heilar og renndar hettupeysur í nokkrum litum. Frábærar peysur úr mögnuðu efni. Henta vel hversdags eða í æfingarnar.

Heilar hettupeysur fyrir konur (rauðar, laxa- eða svartar). Verð áður: 9900 kr. Nú 7900 kr.
Renndar hettupeysur fyrir konur (navy). Verð áður 10900 kr. Nú 8700 kr.

Renndar hettupeysur fyrir karla (tveir litir) Verð áður 10900 kr. Verð nú 8700 kr.

Aðeins fram að jólum

Munið gönguskíða, hlaupa og hjólafötin

Forstöðumaður

Tuesday, December 18, 2012

Dalvík og Sporthúsið í Reykjavík bætast í hópinn!


Enn fjölgar þeim stöðum sem við erum í samstarfi við. Nú geta korthafar hjá ÍMS komist í ræktina frítt á 6 stöðum á landinu. Við vorum að ganga frá samning við Íþróttamiðstöð Dalvíkur og Sporthúsið þar sem m.a Skarphéðinn, ástmögur Mývatnssveitar, kemur illa fyrirkölluðum Reykvíkingum í gott form.

Farið inn á Samstarf og afslættir og kynnið ykkur fyrirkomulagið á þessu samstarfi betur.

Gleðileg jól,

Forstöðumaður

Monday, December 17, 2012

Aðventuhlaupið tókst vel

Eins og margir hafa eflaust tekið eftir fór Aðventuhlaup ÍMS fram með pompi og prakt um síðustu helgi. Við renndum nú blint í sjóinn með þetta en erum bara nokkuð ánægð með þátttökuna. Alls skráðu sig 15 manns (auk 2 hunda) sem ýmist hlupu eða gengu (4 til 10 km) í skafrenningi og leiðinda veðri. Samkvæmt skráningarblöðum skiluðu allir sér í hús aftur. 

Eftir hlaupið gæddum við okkur svo á banönum, safa, kaffi, piparkökukm og Nóa - konfekti. Vinningar sem dregnir voru út voru ekki af verri endanum og það fór enginn tómhentur heim og sumir með 2 vinninga. Það var mál manna að segja engum frá því hvað þetta hafi nú verið skemmtilegt svo meiri líkur væru á því að fá góða vinninga aftur að ári.

ÍMS þakkar öllum styrktaraðilum þessa hlaups kærlega fyrir hjálpina.

Kveðja, ForstöðumaðurThursday, December 13, 2012

Aðventuhlaup

Íþróttamiðstöð Skútustaðahrepps býður til Aðventuhlaups laugardaginn 15. desember. Frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Þátttakendur fá hressingu í lok hlaups og dregnir verða út veglegir vinningar. Allir eiga jafna möguleika.


  • Engin tímataka
  • Fólk gengur eða skokkar á eigin hraða
  • Fólk ræður vegalengd sjálft
  • Mæld braut upp á 10 km (5 km hvora leið)
  • Kostar ekki krónu
  • Mæting og skráning kl. 10.30 í ÍMS
Það er áhætt að segja að andvirði vinninga í Aðventuhlaupinu fari langt með að vera nýr gullfótur fyrir Seðlabanka Íslands. Mörg fyrirtæki fjær og nær hafa komið inn með veglega vinninga. Helstu styrktaraðilar okkar eru:

Speedo Lyfja Reykjahlíð
Craft Vogafjós
Bifreiða- og hjólbarðaverkstæði Karls Viðars Sel Hótel Mývatn
Samkaup Strax Mývatnsstofa
Daddi´s Pizza ÍMS
Reykhúsið á Skútustöðum Soffía Vals
Reykkofinn - Hellu Björgunarsveitin Stefán
Reykhúsið Geiteyjarströnd
Jarðböðin - Mývatn Nature Baths
Kaffi Borgir

Sjáumst öll hress og kát á laugardaginn, 

Mývatnssveit töfraland Jólanna

Forstöðumaður ÍMS

Tuesday, December 11, 2012

Jólin komin í ÍMS

Jæja nú eru jólin alveg að detta inn hjá okkur og farið að styttast í Aðventuhlaupið sem verður um helgina. Það verður mikið fjör og mikið gaman. Glæsilegir vinningar verða dregnir út í lokin og svo fá allir smá hressingu.

Vorum einnig að fá meira af Craft vörum. "Innundirpeysur", mikið úrval af hettupeysum og svo frábæra íþróttagalla á börnin.

Sundlaugin er 30°C í dag og pottarnir óvenju meðalheitir. Badminton í kvöld, allir að mæta feskir.

Kveðja, Forstöðumaður

Tuesday, December 4, 2012

Áttu rétt á styrk?

Sum stéttarfélög endurgreiða hluta (eða alveg) kostnað vegna kaupa á heilsu- eða líkamsræktarkortum hverskonar. Hjá BHM rennur út frestur til að sækja um styrk fyrir árið 2012 þann 9. desember. Þetta er sjálfsagt mismunandi milli stéttarfélaga. En það er um að gera fyrir fólk að tékka á þessu og blæða svo í kort í rækina hjá okkur.

En bætist í hóp líkamsræktarstöðva og sundlauga sem eru í samstarfi við ÍMS. Fyrir stuttu gerðum við samning við Íþróttmiðstöðvar í Fjallabyggð og því getur okkar fólk kíkt í ræktina og sund á Ólafsfirði og Siglufirði. Nánari upplýsingar á Samstarf og afslættir hér á síðunni.

Munið síðan að þeir sem eiga kort hjá okkur í ræktina fá 10% afslátt af öllum vörum sem við seljum, þ.m.t. Craft, Yaktrax og Speedo.

Kveðja, Forstöðumaður

Friday, November 30, 2012

Dagskrá helgarinnar

Í dag er lokað eins og aðra föstudaga.

Laugardagur: Á morgun verður Framsóknarþing haldið í Íþróttamiðstöðinni. Þingið byrjar kl. 11.00 og gert er ráð fyrir að það standi fram til kl. 17.00. Mikið verður umleikis og íþróttasalurinn eins og gefur að skilja lokaður. 

Önnur aðstaða, ræktin og sund verða opin eins og venjulega milli 12.00 og 16.00. Fólk er þó beðið að sýna þolinmæði og umburðarlyndi þar sem reiknað er með 450 manns á svæðinu.

Skokkhópur: Fólk er hvatt til að mæta að venju kl. 11.00 við Íþróttamiðstöðina og trítla smá hring. Allir velkomnir í þetta ókeypis fjör. Svo pottur og kaffi á eftir. Forstöðumaðurinn verður á svæðinu en getur ekki hlaupið vegna anna.

Bestu kveðjur, Forstöðumaður

Ps. Kíkið á tilboðsíðuna og veltið því fyrir ykkur hvort þið þurfið ekki að fara að kaupa gönguskíði

Wednesday, November 28, 2012

Jólahugvekja ÍMS

Nú styttist í Jólin, hátíð ljóss og friðar, með öllu því góða sem þeim fylgir. Smákökur, feitt kjet, rjúpur, ofgnótt af rjóma og mikið af súkkulaði. Allt saman baðað í dýrðarljóma jólaljósanna. Einhvernveginn finnst okkur öllum að við eigum inni fyrir því að sleppa aðeins fram af okkur beislinu, sérstaklega í mat og drykk. Það er jú snjór, kalt og dimmt úti og við erum búin að vinna eins og skepnur. Það er svo sem allt í lagi eins langt og það nær.

Fyrir suma verður þetta þó tímabil talsverðrar togstreitu og jafnvel samviskubits. Tímabil sem nær orðið yfir lok nóvember, allan desember og langt inn í janúar. Það má spyrja sig að því hver tilbreytingin er að borða hátíðarmatinn þegar klukkurnar loksins hringja á Aðfangadag?

Á þessum tíma hættir okkur til að skjóta öllum áformum um bætta heilsu og aukna hreyfingu á frest. "Það tekur því nú ekki að hreyfa sig úr þessu, skaðinn er skeður og sósan er farin að renna. Ég kaupi bara kort í ræktina í janúar og þá tek ég sko á því. Kaupi jafnvel dunk af próteini og slatta af L-Carnitine brennslusafa, þá lekur lýsið af mér".

Staðreyndin er hinsvegar sú, að það tekur því alltaf að gera eitthvað. Þó það sé bara smá göngutúr hér og smá sundsprettur þar. Við þurfum heldur ekki að éta allt sem við komumst yfir bara vegna þess að við erum komin af stað í ofátið og vegna þess að við átum köku í gær. Þetta er flókið samspil ýmissa þátta þar sem samviskubitið spilar sennilega stóra rullu. Nýlega voru birtar niðurstöður úr stórri rannsókn þar sem fram kom, að alkóhólistar voru þeim mun líklegri til að detta aftur í það ef þeir þjáðust af samviskubiti vegna síðasta fyllerís. Þetta verður þó ekki krufið til mergjar hér en það er gaman að velta þessu fyrir sér varðandi mat. Sennilega á nokkuð stór hluti fólks nokkuð óheilbrigt samband við mat nú til dags.

Þetta blogg átti nú aldrei að verða pólitískur vettvangur, en ég ætla þó að leyfa mér að birta nýjasta pistil Jónasar Kristjánssonar sem tekinn er af jonas.is. Þarna finnst mér Jónas hafa lög að mæla, sama hvað hann syngur aðra daga:

Matarfíkn er ein versta fíkn, sem um getur. Sú fíkn, sem erfiðast er að ráða við. Í öðrum tilvikum eru hættulegu efnin skilgreind: alkóhól, amfetamín, heróín, morfín og svo framvegis. Lausnin er þá að forðast efnin. Við vitum ekki, hvað það er í matnum, sem framkallar fíkn. Þess vegna þarf að fara eftir líkum, forðast sykur, hveiti, sterkju, fitu. Og leita lausna í hegðun. Koma okkur upp hollari lífsstíl, sem felur í sér hreyfingu, breytt mataræði og matarvenjur. Það eitt tekur á erfiðleikum fólks við að fást við matarfíkn umfram aðrar fíknir. Það gerist með breyttum huga og breyttum persónuleika.
Ég vil ljúka þessari jólahugvekju með því að biðja fólk að spyrja sig einnar spurningar: "Afhverju borða ég?".

Kveðja, Forstöðumaður

Monday, November 26, 2012

Samningur við Þreksport

ÍMS hefur gert samning við Þreksport á Sauðárkróki. Nú geta korthafar hjá okkur kíkt í ræktina ef þeir eiga leið á Krókinn, og það frítt! Þreksport er vel tækjum búið og þar er einnig að finna mikið af spinninghjólum, hlaupabrettum og stigvélum. Þeir selja einnig vörur frá Craft og Under Armor. Heimasíðu Þreksports má sjá hér.

Kveðja, Forstöðumaður

Friday, November 23, 2012

Skokkhópurinn á morgun

Jæja góðir hálsar. Nú er skokkhópseinvaldurinn ekki á svæðinu þessa helgi en þið látið það ekki á ykkur fá og mætið í skokkið stundvíslega kl. 11.00 í fyrramálið. Sundlaugin opnar að vanda kl. 12.00, svo þið getið skriðið inn, fengið ykkur kaffi, teygt á og allt það. Sjáumst næsta laugardag.

Kveðja, Forstöðumaður

Thursday, November 22, 2012

Af frændum vorum Egyptum

Eins og flestir hafa tekið eftir þá hefur blásið hressilega síðasta sólahringinn með blota og vitleysu. Laugin hefur ekki náð sér á strik síðustu daga og sem stendur er hitastigið 23°C. Við þurfum því að fresta skriðsundstímanum sem vera átti í kvöld.

Það skal þó tekið fram að fólk stundar sjósund hringinn í kringum landið, allt árið. Þetta verður að teljast fínn hiti í samanburði við það. Til gamans má geta að hitastigið undan ströndum Egyptalands er akkúrat 23°C á þessum árstíma. Þar er synt í sjónum alveg eins og enginn sé morgundagurinn. Þar hafa menn þó enga heita potta þar til að hlýja sér eftir volkið. Hvað þá ókeypis kaffi!

Kveðja, Forstöðumaður

Tuesday, November 20, 2012

Craft komið í hús


Vorum að fá í hús mikið úrval af útivistarfatnaði frá Craft. Hágæða sænskar vörur. Allt fyrir gönguskíðin, hlaupin og gönguna. Vettlingar, húfur, sokkar, nærföt, buxur, peysur og jakkar. Fötin hleypa svita einstaklega vel í gegnum sig og haldast því þurr og hlý. Eigum einnig til boli í ræktina, stuttbuxur og léttar hlaupabuxur.

Getum einnig haft milligöngu með Madshus skíðavörur, Rode áburð og klístur á skíði, GT og Schwinn reiðhjól, New Balance hlaupaskó og fleira og fleira. Kíkið á craft.is til að sjá vöruúrvalið.

Í tilefni af þessu ætlum við að bjóða 10% kynningarafslátt fyrstu vikuna af Craft fatnaði. Græjum okkur upp fyrir útivistina, gönguskíðin og skokkhópinn. Verslum jólagjafirnar hjá ÍMS.

Kveðja, forstöðumaður

Saturday, November 17, 2012

600% aukning hjá Skokkhópnum!

Skokkhópurinn 17.11.2012. Frá vinstri, sjálfskipaður formaður og einvaldur Bjarni Jónasson af Vagnbrekku, þá Gluggagægir og svo Hanna Kata með Þórhildi Jöklu. Á myndina vantar Dagbjörtu Bjarnadóttur.
Gríðarleg aukning var hjá skokkhópnum í dag. Um kl. 11.00 fóru Brekkumæðgin af stað og má segja að þau hafi verið einskonar undanfarar, kannað aðstæður og rutt brautina. Þegar þau komu til baka var Hanna Kata búin að handmoka sig alla leiðina frá Grímsstöðum. Hún setti svo barnið í poka (ekki jólasveinapoka) og skundaði niður í þorp. Þar dróg hún svo með sér vaskar konur og gengu þær lengi dags. Talnaglöggum mönnum ber saman um að aukningin hafi verið um 600% frá síðasta laugardegi og eru þá ekki taldir með bræður 13 sem þó sáust á skokki um hóla og hæðir í kringum ÍMS.

Hér með sannast hið fornkveðna: "Aldrei er of vont veður eða færi til að mæta í besta skokkhóp á landinu sem er í Mývatnssveit og fer frá ÍMS alla laugardaga í vetur kl. 11.00 og kostar ekki krónu".

Kveðja, Forstöðumaður

Friday, November 16, 2012

Munið skokkið og gönguna á morgun

Að vanda verður lagt af stað frá Íþróttamiðstöð kl. 11.00 á morgun, laugardag. Farinn verður skemmtilegur hringur og fólk ýmist gengur eða skokkar, allt eftir dagsforminu. Þeir sem mæta tímanlega geta að sjálfsögðu gormað sig upp áður en lagt verður af stað svo þeir renni ekki á rassinn. Eftir átökin verður hægt að fara inn í hlýjuna, teygja á, sötra kaffi og kaupa léttar veitingar. Já og busla í pottinum. Sjáumst.

Kveðja, starfsfólk ÍMS

Wednesday, November 14, 2012

Yaktrax gormarnir komnir!Látið yður eigi verða fótaskortur í vetur. Þegar sólin er lágt á lofti og svellin lúmsk, þá er best að búa sig vel. Þér kaupið Yaktrax mannbroddana/gormana hjá okkur. Til í flestum stærðum fyrir hlaup eða göngu. 

Komið við í Íþróttamiðstöðinni og grípið par af þessum forláta staðalbúnaði fyrir veturinn.

Kveðja, Forstöðumaður

Tuesday, November 13, 2012

Skriðsund í kvöld!

Laugin að morgni 13. nóvember 2012
Ef að sundlaugar geta verið fallegar, þá var laugin okkar það svo sannarlega í morgunsárið. En hún var ekki bara falleg, heldur er hún líka að taka við sér eftir óveðrið. Ef fram heldur sem horfir verður hún komin í 29°C í kvöld og því alveg passleg til að synda í. Við vorum líka að fá í hús vörur frá Speedo sem skriðsundskonurnar pöntuðu hjá okkur. Þær ættu að geta stungið sér til sunds í kvöld alveg prýðilega græjaðar.

Kveðja, Forstöðumaður

Monday, November 12, 2012

LOKUN!

Vegna óviðráðanlegra orsaka þurftum við að loka kl. 16.30 í dag. Við biðjumst velvirðingar ef þetta hefur valdið einhverjum óþægindum. Við opnum kl. 09.00 í fyrramálið, þriðjudag.

Kveðja, Forstöðumaður

Barnapössun fellur niður í dag

Það er leiðinda veður í Mývatnssveitinni í dag. Enn eina ferðina, það á ekki af okkur að ganga! Því miður treystum við okkur ekki til að halda úti barnagæslu í dag, skóli féll niður og allt í skralli. Barnagæsla verður næst miðvikudaginn 14. nóvember.

Að öðru leiti reynum við að halda úti annari þjónustu. Blak á dagskrá kl. 17.00 og lóðin í kjallaranum bíða eftir að láta taka í sig. Sundlaugin sjálf er hinsvegar dottin niður í 21°C og því óvíst með skriðsundsnámskeið sem á að vera á morgun. Við bíðum og sjáum.

Kveðja, Forstöðumaður

Saturday, November 10, 2012

Skokkhópurinn 10. nóv 2012

Skokkhópurinn 10. nóv 2012.
Frá vinstri Bjarni Jónasson skokkhópsstjóri
Þó veður væri ekki með besta móti í dag lagði skokkhópurinn af stað stundvíslega kl. 11.00 frá Íþróttamiðstöðinni. Farið var sem leið lá um Múlaveg, niður Austurlandsveg og svo haldið til norðurs, í átt að planinu á Hótel Reynihlíð þar sem snúið var við. Sama leið til baka, samtals 3,5 km. Þetta gekk ágætlega en þó þurfti að klofa skafla á nokkrum stöðum og setja undir sig hausinn á móti norðan garranum þegar verst lét. Einnig var nokkur hálka og því gott að vera vel "mannbroddaður". Innan tíðar munum við hjá ÍMS bjóða upp á maganaða gorma undir skó frá Yaktrax til sölu. Fylgist með.

Kveðja, Forstöðumaður

Thursday, November 8, 2012

Samstarf við Bjarg

Íþróttamiðstöð Skútustaðahrepps hefur gert samstarfssamning við Líkamsræktina Bjarg á Akureyri. Nú geta allir þeir sem eiga kort í þreksalinn hjá okkur fengið að fara frítt í ræktina á Bjargi allt að 8 sinnum í mánuði. Athugið að þetta gildir ekki fyrir "10 skipta" klippikort, heldur aðeins 5 vikna, þriggja mánaða og árskort. Eins bjóðum við korthafa á Bjargi velkomna í Íþróttamiðstöðina til okkar þar sem þeir geta farið í sund eða ræktina.

Þeir sem hafa hug á að nýta sér þetta eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við forstöðumann áður en þeir halda í víking til Akureyrar.

Kveðja, Bjarni

Wednesday, November 7, 2012

Barnagæsla

Ákveðið hefur verið að bjóða upp á barnagæslu í Íþróttamiðstöðinni tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum milli kl. 17.00 og 19.00. Elstu bekkingar grunnskólans munu sjá um gæsluna og kostar 500 krónur fyrir hvert barn. Allur ágóði af starfinu rennur í ferðasjóð 9. og 10. bekkjar. Þetta er frábært tækifæri fyrir fólk til að skella sér í ræktina, í sund eða blak og í leiðinni styðja við gott málefni. Verum nú dugleg að mæta með gríslingana svo grundvöllur verði fyrir að halda starfinu áfram.

Ef fólk á gömul leikföng eða barnabækur sem það tímir að lána eða gefa, má það endilega koma því áleiðis eða hafa samband við forstöðumann ÍMS.

Kveðja, forstöðumaður

Monday, November 5, 2012

Opið í dag

Það var heldur vetrarlegt um að litast þegar fólk fór að tínast til vinnu í morgun í Mývatnssveit. Inngangurinn í íþróttamiðstöðina var allaveg vel varinn af stærðarinnar skafli. Þá var ekkert annað að gera en að grípa í skóflu og hreinsa aðeins frá. Næst á dagskrá var svo að fara út um glugga til að komast á laugarsvæðið og moka frá hurðum. Ekki slæmt að byrja daginn á smá hreyfingu.

Annars kom skemmtilega á óvart að sjá að laugin var 27°C heit í morgunsárið. Sundþyrstir geta því farið að pakka í pokana sína og það lítur vel út með skriðsundsnámskeið á morgun.

Kveðja, Forstöðumaður

Saturday, November 3, 2012

Lokað í dag laugardag

Vegna veðurs og ófærðar verður Íþróttamiðstöð Skútustaðahrepps lokuð í dag. Opnum næst á mánudag kl. 09.00. Sjáumst hress og kát

Forstöðumaður

Thursday, November 1, 2012

Námskeið fellur niður í kvöld

Skriðsundstíminn sem vera átti í kvöld fellur niður vegna veðurs. Norðan garrinn er líka búinn að lemja á yfirborði laugarinnar með þeim afleiðingum að hitastigið, sem var 30°C á þriðjudag, var komið niður í 21°C nú í morgun. Þetta er eitthvað sem verður skoða. Við vonum það besta fyrir helgina og næstu viku og stefnum að því að hafa tíma á þriðjudaginn.

Kveðja, Forstöðumaður

Wednesday, October 31, 2012

Góð byrjun á skriðsundsnámskeiðinu

Í gær hófst hið margumtalaða skriðsundsnámskeið Soffíu og ÍMS. Alls hafa 10 skráð sig og af þeim mættu 8 í gær. Einhverra hluta vegna hafa bara konur skráð sig og er það umhugsunarvert. Kunna allir karlar skriðund? Ef einhverjum karli snýst hugur og vill vera með þá munu þær ábyggilega taka vel á móti honum.

Nú er úti veður vont og ekki er spáin fyrir morgundaginn neitt til að hrópa húrra yfir. Við skulum bíða og sjá hvort fresta verði námskeiði á morgun en við munum tilkynna það hér og á fésbókinni.

Kveðja, Starfsfólk ÍMS

Monday, October 29, 2012

Fyrsti skokkhópurinn

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Áhugafólk um hlaup, göngu og aðra útivist hittist við Íþróttamiðstöðina síðasta laugardag og tóku hring saman. Alls mættu 6 viljugir joggarar og eru það 1,6% íbúa sveitarfélagsins Skútustaðahrepps. Það jafngildir því að 300 manns hefðu mætt í skokkhóp á Akureyri og 320.000 manns hefðu mætt í Peking. En betur má ef duga skal og við stefnum að því að gera enn betur um næstu helgi.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um hlaup að vetri til viljum við benda á þennan pistil sem er að finna undir Fróðleik hér á síðunni. Það er engin ástæða að vera hræddur við kuldabola.

Kveðja, ÍMS

Skriðsundsnámskeið


Síðustu forvöð að skrá sig á skriðsundsnámskeiðið sem hefst á morgun. Skráning hefur verið með ágætum en ennþá er hægt að bæta við fólki.

Kveðjur, starfsfólk ÍMS

Friday, October 26, 2012

Skokkhópur á morgun

 Mynd tekin af http://www.acmemultisports.com/
Allir að muna eftir skokkhópnum á morgun. Förum frá sundlaug kl. 11.00 og veðurspáin er okkur frekar hagstæð. Ef þið eigið brodda eða gorma undir skóna er sennilega vissara að taka þá með. Við erum að taka saman nokkur hollráð fyrir þá sem vilja hlaupa, ganga eða hjóla að vetri til. Verður birt í fróðleik fljótlega.

Einnig viljum við minna á að en er hægt að skrá sig á skriðsundsnámskeiðið sem hefst á þriðjudaginn. Látið vita sem fyrst.

Wednesday, October 24, 2012

Skokkhópur

Áhugafólk um hlaup, göngu, hjólreiðar og aðra holla hreyfingu mun hittast við Íþróttamiðstöðina á laugardögum kl. 11.00 í vetur. Farinn verður skemmtilegur hringur og þáttakendur stilla hraða og vegalengd af eftir eigin getu. Eftir átökin er tilvalið að teygja á í rólegheitum í Íþróttamiðstöðinni, sötra kaffi og láta svo líða úr sér í pottunum. Fólk með barnavagna og kerrur er sérstaklega boðið velkomið. 

Allir að mæta nú á laugardaginn (27. okt)!

Skriðsundsnámskeið að hefjast!

Skráning er hafin á skriðsundsnámseið og mun það hefjast 30. október ef næg þátttaka næst. Kennari verður Soffía Kristín Björnsdóttir íþróttakennari og mun kennsla fara fram á þriðjudögum og fimmtudögum milli 17.30 - 18.30. Markmið námskeiðsins er að fólk læri að synda átakaminna skriðsund sér til heilsubótar og skemmtunar. Námskeiðið er fyrir byrjendur en hentar einnig þeim sem áður hafa farið á námskeið eða vilja bæta tæknina. Þeir sem skrá sig á námskeiðið geta pantað froskalappir, sundgleraugu og annan varning frá Speedo á 20% afslætti í sundlaug. Nánari upplýsingar og skráning í síma 464-4225 eða sendið póst á ims@myv.is

Friday, October 19, 2012

Opnun heimasíðu

Hér verða birtar fréttir og upplýsingar um starfsemi Íþróttarmiðstöðvarinnar í Skútustaðahreppi.

Síðan er í vinnslu og mun opna formlega fljótlega.