Wednesday, January 30, 2013

Svona á þetta að vera!


Það er sko búið að vera líf og fjör í ÍMS í dag. Stórhríðinni hefur slotað og fólk sennilega fegið að komast út aftur. Ég segi ekki að það sé eins og beljur að vori, en allt að því. Líf og fjör. Fullt af fólki hefur komið og synt, ræktin hefur verið vel nýtt og nú síðast 17 manns í blak! Svo er fótboltinn eftir kl. 19.00.


Þetta þýðir líka að nóg hefur verið að gera hjá Sonju og Ingimari Atla í barnagæslunni. Sú þjónusta verður líkast til vel nýtt það sem eftir lifir vetrar. Svona á þetta að vera!

Kveðja, Forstöðumaður

Tuesday, January 29, 2013

Frábært gönguskíðanámskeið að baki

Steina og Sæmi
Gönguskíðanámskeiðið sem fram fór um helgina heppnaðist í alla staði vel og mæting var frábær. Alls mættu 30 manns, bæði börn og fullorðnir. Það er ljóst að mikil vakning er í gönguskíðamennskunni um land allt. Það mætti kannski segja að tími sé kominn til að Mývetningar fari að láta til sín taka í skíðagöngunni aftur, enda annálaðir göngugarpar fyrr á árum. Nú er mikilvægt að fylgja þessu eftir með fleiri námskeiðum og uppákomum. Raddir voru uppi um að stofnuð yrði gönguskíðadeild innan Mývetnings.

Kennari á námskeiðinu var Sigurgeir Stefánsson frá Húsavík og honum til aðstoðar var Skúli í Hólmum. Byrjað var á að fara yfir helstu atriði sem ber að hafa í huga við val á gönguskíðum og búnaði en einnig fjallað aðeins um tæknileg atriði. Í kjölfarið var keyrt út að Hlíðarrétt þar sem verklega kennslan fór fram. Þar sýndu leiðbeinendur hvernig ætti að bera sig að og leiðbeindu fólki svo í kjölfarið. Fólk gekk hring eftir hring og var mál manna að miklar framfarir væru hjá flestum á stuttum tíma. Kennarar fullyrtu að margir færu létt með 20 km í Orkugöngunni nú í apríl og inn á milli væri fólk sem ætti að geta æft sig upp í 60 kílómetrana á þessum rúmu 2 mánuðum sem eru til stefnu.

En við látum þetta gott heita í bili og bendum á myndaalbúm þar sem hægt er að skoða nokkrar myndir frá námskeiðinu. Að lokum viljum við þakka Björgunarsveitinni Stefáni sérstaklega fyrir hjálpina við að gera spor  fyrir okkur.

Sigurgeir spjallar við fólkið

Fólk að verða tilbúið í gönguna
Kveðja, Forstöðumaður

Thursday, January 24, 2013

Sund sund sund


Frábær mæting hefur verið í sund eftir áramótin. Það er kannski af sem áður var, að pottarnir séu kraumandi af þjóðfélagsumræðum, en stemmningin er engu að síður góð. Flestir líta svo á að Jarðböðin hafi tekið við því hlutverki sem sundlaugin hafði áður, þ.e. að vera staður þar sem fólk hittist í rólegheitum og ræðir málin. Maður tekur líka eftir breyttu mynstri frá því í gamla daga. Hér hefur meira farið fyrir því upp á síðkastið að fólk sé mætt til þess að synda og við fögnum því auðvitað.

Nokkrar áhugverðar staðreyndir um sund:

  1. Til eru fornar egypskar myndir af sundmönnum frá 2500 fk.
  2. Sund tekur á alla stærri vöðvahópa líkamans
  3. Sund minnkar stress (eins og önnur hreyfing)
  4. Þú getur synt fram á síðustu ár ævinnar
  5. Fer vel með liði og bein
  6. Þú getur brennt 650 kkal/klst með rösku sundi
  7. Bringusund er hægasta sundið og elsta "sundtakið"
  8. Skriðsund snýst nánast bara um tækni
Gott er að ljúka þessum pistli með myndbandi sem sýnir hversu átakalítið skriðsund getur verið sé það rétt framkvæmt. Sundmaðurinn á myndinni gæti haldið áfram að synda svona tugi km!


Kveðja, forstöðumaður

Tuesday, January 22, 2013

Gönguskíðin komin

Vorum að fá í hús sýnishorn af skíðum. Þrjár stærðir af gönguskíðum frá Madshus, stafi, bindingar og skó. Við bjóðum upp á þessar vörur á frábæru verði:

Skíði 28.995 kr.
Stafir 9.900 kr.
Skór 24.995 kr.
Bindingar 12.995 kr.

Byrjendapakki fyrir fullorðna 59.995 kr. (20.000 kr. afsláttur)
Byrjendapakki fyrir börn 28.995 kr.(ekki til á staðnum)

Þetta eru ekki margar áfyllingar á bílinn!

Kíkjið við og skoðið gönguskíðavörurnar okkar frá Craft og Madshus. Ódauðleg blanda!

Kveðja, forstöðumaður


Monday, January 21, 2013

Heilsudagurinn mikli

Skarphéðinn að þruma yfir mannskapnum
Á laugardaginn síðasta var Heilsudagurinn mikli hjá okkur. Margt var í boði, kennsla í tækjasal, mælingar á blóðsykri- og þrýstingi, hæð, þyngd og fleira. Síðan lukum við deginum með smá fyrirlestri þar sem Skarphéðinn Freyr einkaþjálfari fór yfir mataræðið, sem er jú lykillinn bæði að heilsu og árangri í líkamsrækt. Frábær mæting á þennan fyrirlestur sýnir, svo ekki verður um villst, að grundvöllur er fyrir að hafa oftar spennandi fyrirlestra.

Við viljum þakka öllum sem komu að þessum degi með einhverju hætti kærlega fyrir. Sérstaklega Dagbjörtu og Öglu frá Lyfju og Heilsugæslunni og svo Skarphéðni sem gerði sér ferð norður yfir heiðar. Að lokum viljum við þakka þeim fjölmörgu gestum sem komu við og nutu dagsins. Við eigum eftir að taka endanlega saman hve margir komu en það var allavega yfir 50 manns sem komu í húsið. Minnst 13% sveitarinnar!!!! 

Kveðja, Forstöðumaður

Tuesday, January 15, 2013

Badminton í kvöld

Blakæfing hjá Mývetningi
Í kvöld er badmintonæfing. Það er tilfinning okkar hjá ÍMS að veturinn í vetur verði mikill badmintonvetur, enda frábær íþrótt. Það er nokkuð misjafnt eftir því hvaða gögn eru skoðuð hvar badminton flokkast á vinsældarskalanum í heiminum. Það er þó ljóst, að badminton er allavega ein af 5 vinsælustu íþróttum í heimi þegar litið er til ástundunar almennings. Vissuð þið að badminton er hraðasta "spaðaíþróttin"? Fokkan getur náð allt að 300 km/klst þegar hún fer af spaðanum! Hún fer því hraðar en tennisbolti og veggtennisbolti. Vissuð þið að í einum leik getur hver leikmaður farið um 2 km og bestu fokkurnar eru búnar til úr vinstri vængnum af gæsum! Magnaðar staðreyndir.

Eftir badminton í kvöld er frjáls tími í sal. Þeir sem eiga kort eða borga 500 kall geta skellt sér í bandý, körfu eða bara legið á miðju gólfinu og slappað af. Svo lengi sem fólk er í fötum og fer ekki að slást þá er okkur sama.

Annars er sundlaugin 30°C, bottarnir frábærir og kaffi á könunni.

Kveðja, Forstöðumaður

Wednesday, January 9, 2013

Dagská Vetrarins

Mig langar hér að birta dagskrá ÍMS fyrir vorönn 2013. Hér birtist hún eins og hún kom út í Mýfluginni miðvikudaginn 9. janúar. Ég vil einnig minna fólk á að nýta sér tímatöfluna hér á síðunni okkar ef það vill fylgjast með hvað er í gangi. Hún er beintengd við google dagatalið okkar og því eiga nýjir viðburðir að koma inn jafnóðum.

Fréttabréf Íþróttamiðstöðvar


Skútustaðahrepps (ÍMS) fyrir „vorönn“ 2013.


Kæru sveitungar ég vil byrja á því að óska ykkur gleðilegs árs og þakka liðnar stundir. Einnig þakka ég hversu vel mér og þeim breytingum sem fylgt hafa komu minni hefur verið tekið.

Það er mín trú, að starfsemi íþróttamiðstöðva sé einhver mikilvægasta starfsemi sem fram fer í hverju samfélagi og ég er mjög ánægður með að fá tækifæri til að vinna á þessum vettvangi. Með íþrótta og tómstundastarfi höfum við tækifæri til að auka félagsþroska barna og bjartsýni, efla heilsu og leiða þau inn á brautir heilsusamlegs lífs á árum mótunar. Íþróttamiðstöðin á að vera hús slíkrar starfsemi. En hér höfum við sem eldri erum einnig tækifæri til að viðhalda heilsu okkar og efla. Þannig aukum við lífsgæði okkar mikið. Ég sé fyrir mér, að í framtíðinni muni ÍMS geta átt stóran þátt í því að fólk geti lengur lifað með reisn í sinni heimasveit. Efla þarf starfsemi sjúkraþjálfara og nuddara og bæta þá umgjörð alla. Þessi mál eru öll í skoðun.

„Ef þú hugsar ekki vel um líkamann, hvar ætlarðu þá að búa?“

Opnunartímar haldast óbreyttir enn um sinn:
Íþróttamiðstöðin er opin sem hér segir:
Mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga frá 09.00 til 19.00
Miðvikudaga frá 12.00 - 19.00
Laugardaga frá 12.00 - 16.00

Sundlaugin er opin sem hér segir:
Mánudaga til fimmtudaga frá 16.00 til 19.00
Laugardaga 12.00 til 16.00

Verðskrá
Það er jólagjöf okkar hjá ÍMS að halda óbreyttri verðskrá í sund og ræktina.
Til gaman má geta að árskort hjá okkur í ræktina kostar minna en 3 mánaða kort í líkamsræktarstöðvar á Akureyri.


Tímar í íþróttasal – Nýtt kortakerfi!
Tímar í íþróttasalnum verða með svipuðu sniði og verið hefur. Blak, badminton, fótbolti og jafnvel einhver frjáls tími. Stundatafla verður birt fljótlega en æfingar eru þegar hafnar.
Nú verður tekin upp sú nýbreytni að borgað verður fyrir tímana fyrirfram. Hægt er að kaupa stök skipti fyrir 500 kr., 10 tíma fyrir 4000 krónur og svo 30 miða kort fyrir 10.000 kr. Með þessu tel ég að komið sé til móts við sem flesta og þannig skapast aukið svigrúm fyrir fólk að prufa hina og þessa tíma. Það þarf varla að taka það fram að allir eru velkomnir.

Ljósabekkur
Ákveðið hefur verið að hætta með ljósabekkinn. Því verða ekki fleiri ljósakort seld hjá ÍMS. Þegar perurnar sem nú eru í bekknum hafa sungið sitt síðasta, mun bekkurinn hverfa á braut og fólk er því beðið um að nýta kortin sín fyrir 1. apríl 2013.

Barnagæsla
Áfram verður boðið upp á barnagæslu á mánudögum og miðvikudögum milli kl. 17.00 og 19.00. Við hvetjum fólk til að nýta sér þetta og í leiðinni styrkja starf elstu bekkinga í Reykjahlíðarskóla.

Skokkhópur og GANGA!
Starfsemi skokkhóps er með sama sniði og fyrir áramót. Við förum frá Íþróttamiðstöð alla laugardaga kl. 11.00. Við viljum ítreka að félagskapurinn er fyrir alla, líka þá sem vilja ganga í góðum félagsskap. Með vorinu er stefna að setja meiri kraft í þetta og fara minnst þrisvar í viku.

Kennsla í tækjasalnum/einkaþjálfun
Laugardaginn 19. janúar mun Skarphéðinn Freyr einkaþjálfari vera á svæðinu og kenna fólki á tækin í ræktinni og veita ráðgjöf með æfingaráætlanir. Þessi þjónusta verður öllum sem eiga þrekkort hjá ÍMS að kostnaðarlausu. Áhugasamir skrá sig hjá Bjarna.

Heilsudagur 2013
Í tengslum við komu einkaþjálfara verður blásið til mikils heilsudags laugardaginn 19. janúar. Heilbrigðisstarfsmenn verða á svæðinu og hægt verður að láta mæla blóðþrýsting, blóðsykur, púls, hæð, þyngd og fituprósentu svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður fræðsla um mataræði og næringu. Nánar auglýst í næstu viku.

Gönguskíðanámskeið
Fyrirhugað er að halda gönguskíðanámskeið laugardaginn 26. janúar. Fólk getur fengið lánuð skíði og skó á staðnum. Kennari verður Sigurgeir Stefánsson á Húsavík. Athugið að þetta verður aðeins hægt ef þátttáka verður næg. Vinsamlegast látið vita sem fyrst í síma 464-4225 eða sendið póst á ims@myv.is.

Hlakka til að sjá ykkur öll á nýja árinu

Kveðja, Bjarni Jónasson
Forstöðumaður ÍMS

Monday, January 7, 2013

Gönguskíði


Nú hefur verið bætt við síðuna okkar nýrri undirsíðu sem nefnist "Gönguskíði". Þar er ætlunin að birta upplýsingar um hvort og hvar séu opin gönguskíðaspor í Mývatnssveit. Aðdragandi þessa er sá, að aðili frá Skíðasambandi Íslands hafði samband við Jakob Stefáns (Kobba) og spurðist fyrir um hvort hægt væri að nálgast slíkar upplýsingar á einum stað. Úr varð að við ákváðum að hýsa þetta hér á síðu ÍMS.

Það er von okkar að þetta verði til þess að fleiri muni leggja leið sína í sveitina til þess að fara á gönguskíði. Enn fremur vonum við að þetta muni efla gönguskíðamenningu Mývetninga og verða þeim hvatning til þess að draga fram skíðin.

Smellið hér til að skoða síðuna

Kveðja, Bjarni

Wednesday, January 2, 2013

Gleðilegt nýtt ár!


Gleðilegt nýtt ár kæru sveitungar og takk fyrir samveruna á liðnu ári! Ég vil byrja á því að segja að ég er afskaplega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma að rekstri Íþróttamiðstöðvar Skútustaðahrepps. Mér finnst að mér hafa verið vel tekið og að fólk sé yfirleitt nokkuð jákvætt gagnvart þeim breytingum sem hafa fylgt komu minni. Þær munu verða fleiri.

Þar sem ekki er komin fastmótuð dagskrá fyrir komandi mánuði, "vorönn 2012", þá vildi ég setja inn smá yfirlit yfir hvað verður sennilega í gangi.

Opnunartímar: Haldast óbreyttir að sinni

Tímar í íþróttasal:
Blaktímar verða sem fyrr á mánudögum og miðvikudögum milli 17 og 19. Badminton verður að öllum líkindum tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum milli 17 og 18. Við stefnum að því að hafa fótbolta allavega 1x í viku, helst 2x. Þessi mál eru í skoðun.

Þrektímar: Það er til skoðunar að vera með hóptíma í þreki/æfingum. Tímarnir/námskeiðið gæti farið fram í þreksal, í íþróttasal og úti á víxl.

Gönguskíðanámskeið: Til skoðunar er að fá gönguskíðaþjálfara til að koma og halda námskeið.

Ég er líka alltaf til í að skoða spennandi hugmyndir ef fólk lumar á þeim. Við látum þetta gott heita að sinni.

Kveðja, Bjarni