Wednesday, February 20, 2013

Vax eða rifflur?

Vorum að setja inn smá fróðleik um hvort fólk eigi að velja áburðarskíði eða riffluð. Pistilinn er hægt að sjá hér eða undir Fróðleikur.

Vorum að fá í hús Zero- Extreme Craft- buff. 4500 kr.


Vorum einnig að fá Bliz Velo skíðagöngu, hlaupa og hjóla- sólgleraugu með 2 auka linsum, hulstri og klút. Aðeins 12.995 kr.


Kveðja, starfsfólk

Monday, February 18, 2013

Aðbúnaður verkafólks.

Bjössi að þrífa laugina
Verkin ganga ekki alltaf eins og við viljum að þau geri. Þá er um að gera að hugsa út fyrir kassann. Hér má sjá starfsmann mánaðarins hjá ÍMS, Sigurbjörn Reyni (Bjössa) ryksuga laugina nú í morgun. Nú er laugin ekki bara akkúrat passlega heit, heldur einnig svo hrein og fín að eftir er tekið. Þið bara verðið að mæta í sund í kvöld og tékka á þessu.

Kveðja, starfsmenn ÍMS

Saturday, February 16, 2013

Skíðað í kringum Belg


Á morgun sunnudag (17.02.13)  mun nýstofnuð gönguskíðadeild Mývetnings standa fyrir göngu í kringum Vindbelg. Lagt verður af stað frá hlaðinu í Vagnbrekku kl. 10.30 undir leiðsögn Egils bónda. Kaffiveitingar verða að göngu lokinni.

Annars er frábært færi til göngu á vatninu í dag og í gær. Þeir sem eru kunnugir á vatninu ættu ekki að láta það framhjá sér fara og spenna á sig skíðin.

Kveðja, nefndin

Tuesday, February 12, 2013


Fyrir mér hefur gönguskíðaíþróttin ávallt litið út fyrir að vera frekar hættulaus íþrótt. Í huga manns er greipt mynd af gömlu fólki í sænskum greniskógi. Þau líða átakalaust og létt áfram á vit ævintýranna með epplamús og kexkökur í bakpokanum. Svoleiðis einhvernveginn sá ég fyrir mér að fyrsta gönguskíðaferðin mín yrði líka. Því fór víðsfjarri.

Laugardagsmorguninn 9. febrúar á því herrans ári 2013 var ég kominn upp í Hlíðarfjall á Akureyri rétt fyrir kl. 10.00 um morguninn og leist vel á aðstæður. Hiti 5°C, logn og fallegt útsýni. Konan og börnin ákváðu að fara í lyfturnar á meðan ég ætlaði að tæta upp þessa fjandans gönguskíðabraut. Ég var helvíti drjúgur með mig í Craft gallanum og það glansaði á nýju Madshús skíðin mín. Fyrir ókunnuga leit ég sennilega ekki ósvipað út eins og Bjørn Dæhlie eða Gunde Svan.

Þegar ég kom uppá gönguskíðasvæði var troðarinn að ljúka við fyrsta hringinn. Brautin lá spegilslétt og fersk fyrir framan mig, eins og akur sem beið eftir því að ég kæmi og gróðursetti - þó ekki væri nema brot - af óbeisluðum gönguskíðahæfileikum mínum. Ég sá strax að ég myndi ná gríðarlegum hraða í þessari braut. Því næst spennti ég á mig skíðin, vinkaði kumpánalega í mannin í skálanum og hélt af stað.

Rétt á undan mér var eldri maður sem fór frekar hægt yfir. Ég fór strax að hafa áhyggjur af því hvernig ég gæti farið framúr honum þar sem sporið var ekki tvöfalt.  Náði samt að róa mig niður og vera ekki með neinn æsing svona í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta. Gangan gekk nokkuð vel og ég var ánægður með skíðin. Það dróg hægt og rólega saman með okkur manninum; en svo kom fyrsta brekkan.

Í fjarlægð fylgdist ég með gamla manninum fara niður þessa aflíðandi og saklausu brekku. Hann leið niður brekkun átakalaust og var uppréttur allan tímann. Þegar ég kom í brekkuna var ég hvíldinni feginn, enda farinn að svitna. Ég var reyndar hissa hve miklum hraða ég náði. Það söng í rifflunum þegar þær þutu yfir snjáinn og maður varð að beygja sig aðeins í hnjánum og vera dúandi til að halda betur jafnvægi. Ég datt þó ekki og gat haldið göngunni áfram þegar niður var komið.

Nú sá ég hinsvegar að enn var von á brekkum; og það ekki öllum árennilegum. Sérstaklega leist mér illa á eina þeirra sem var í U-beygju. Ég róaðist samt nokkuð þegar ég sá gamla mannin renna niður hana eins og litla leikfangalest á tréspori, sem fyrr uppréttur. Þegar hann kom svo niður á flatann hélt hann áfram á sinni yfirveguðu en öruggu göngu.

Þegar ég  svo byrjaði að renna niður brekkuna fór ég að velta því fyrir mér hvernig í ósköpunum maður færi að því halda skíðunum í sporinu á svona mikilli ferð; og það í beygju. Hraðinn jókst sífellt og hvinurinn í rifflunum var nú farinn að líkjast vítisvélunum sem Sven Hassel skrifaði um í bókinni Dauðinn á skriðbeltum. Ég hélt mér dauðahaldi í stafina, beygði hnéin og hallaði mér fram. Sjónsviðið þrengdist smám saman og ég nálgaðist óðum beygjuna..... og ruðningana.

Það fór svo sem ég óttaðist mest, ég rann rakleitt út úr sporinu og stökk eins og Olav Ulland á ruðningnum. Ég stefndi á Kaldbak og útsýnið var stórfenglegt. Togari sigldi út spegilsléttan fjörðinn og Látraströndin virtist svo unaðslega nálæg og friðsæl. Nú færi að styttast í að grásleppukarlarnir fari að leggja netin. Mér varð hugsað til Guðrúnar langömmu og jólanna í Mávahlíðinni. Síðan kom skellurinn.

Ég lá í snjónum í smá stund og trúði því varla að ég væri heill. Jú það var ekki um að villast, ég gat kreppt tærnar, hreyft fingurnar, rétt úr löppunum og loks sest upp. Fegnastur var ég samt að enginn sá þetta. Ég dröslaðist aftur inn á brautina, dustaði af mér snjóinn og hélt af stað aftur. Gamli maðurinn var nú horfinn.

Þetta var aðeins fyrsta af mörgum byltum þennan dag. Ég prófaði allar útgáfur, afturábak stökk með heilli skrúfu, framheljarstökk með leggjarsnúning og hliðardýfu og þrefaldan hliðarsnúning með aftursveigðan haus og grand plúí. Jóga-gúrúinn Bikram Choudhury hefði ekki fyrir sitt litla líf geta leikið eftir þær stellingar sem ég lá í eftir sum stökkin. Eftir þetta versnaði líka brautin til muna og ég var farinn að velta því fyrir mér hvort einhverjir listamenn á sýrutrippi hafi fengið að koma að lagningu hennar!

Ég var hálf niðurdreginn þegar ég gekk með skíðin undir hendinni niður í skíðaskála aftur til að hitta fjölskylduna. Ég hafði ekki áttað mig á því að þetta sport væri aðeins á færi mestu loftfimleikamanna. Ég ályktaði sem svo, að liðið sem stundaði þetta hlyti að vera adrenalínfíklar upp til hópa. Í samanburði við þetta er Strýtan barnaleikur og fallhlífastökk hægðarleikur.

Alls fór ég 12 km í þessari fyrstu göngu og var sáttur við allt nema þessar flugferðir og brekkur. Á þetta ekki að fara fram á jafnsléttu? Eftir að hafa komið að máli við harða gönguskíðafíkla niðrí bæ, komst ég samt að því að líklega var færið óvenju slæmt, það róaði mig aðeins. Loks hitti ég Leif í Vogum í gær og hafði hann sömu sögu að segja af þessari braut þeirra Akueyringa. Hann hafði víst áhyggjur af því að trufla flugumferð þegar hann fór þarna um daginn. Það er sennilega besta að ganga bara í sinni heimasveit.

Maður má ekki vera of harður við sig eftir aðeins eina ferð og líklega verð ég að sætta mig við það að þetta krefst æfinga eins og annað sport. Það jákvæða við þetta allt saman er þó að ég get ekki beðið eftir að komast aftur á skíði.

Kveðja, Bjarni

Monday, February 11, 2013

Idiot-proof skíðaáburður kominn í hús

Vorum að fá í hús skíðaáburð sem allir geta notað. Áburðurinn er fljótlegur og einfaldur í notkun og bæði ver skíðin og gefur betra rennsli. Virkar fyrir öll hitastig. Þú berð á skíðin með svampi sem er fremst á brúsanum. Alveg eins og að bera á skó. Fínt fyrir riffluð gönguskíði, svigskíði og bretti.

Minnum á gönguskíðafundinn sem verður í kvöld í ÍMS kl. 20.00. Rætt verður um stofnun gönguskíðadeildar innan Mývetnings, lagningu spora ofl.

Forstöðumaður

Friday, February 8, 2013

Næstu dagar

Gönguskíðaspor: Spor var gert í Kröflu í dag (08.02.2013) með troðara. Vonandi helst það gott allavega á morgun, laugardag.

Sel Hótel Mývatn á Skútustöðum hefur haldið opnum sporum síðustu daga. Svo verður áfram um helgina.

Skokkhópur. Skokkhópseinvaldurinn er á Akureyri. Fólk er þó hvatt til að mæta á morgun, laugardag.

Fundur á mánudag. Eins og auglýst var í Mýflugunni síðustu þá er gönguskíðafundur á mánudaginn kl. 20.00 í ÍMS. Rætt um stofnun gönguskíðadeildar innan Mývetnings, gerð spora, aðstöðu ofl.

Kveðja, forstöðumaður.

Thursday, February 7, 2013

Upprifjun frá gönguskíðanámskeiðinu



Eins og einhverjir kunna að muna, þá mælti Sigurgeir gönguskíðakennari með því að fólk færi á youtube.com til að skoða kennslumyndbönd fyrir gönguskíði. Hér er eitt ágætt og sennilega ekki vitlaust að æfa sig aðeins staflaust.

Kveðja, forstöðumaður

Tuesday, February 5, 2013

Takið slaginn!

Kæri lesandi ég ætla að skora á þig. Ég ætla að skora á þig að taka áskorun.

Það er mikilvægt að takast reglulega á við nýjar áskoranir og geta aðlagast breytingum, því tilveran er síbreytileg . Ef við getum ekki brugðist við og aðlagast breytingum, þá stöndum við í stað og gerum okkur lífið erfiðara en það þarf að vera. Tilbúnar áskoranir geta því hjálpað okkur í lífinu. Þetta getur verið allt frá því að læra á hljóðfæri upp í að hlaupa maraþon.

Að fást við erfið verkefni sem krefjast skipulagningar, aga, vinnu og erfiðis geta gefið okkur afskaplega mikið. Á leiðinni kynnumst við sjálfum okkur betur og öðlumst nýja sýn á lífið og tilveruna. Þegar verkefninu líkur öðlumst við aukna trú á sjálf okkur og fyllumst stolti. Síðast en ekki síst þá líður okkur vel.

Á síðustu árum hef ég sjálfur verið að átta mig á því að viss hluti af mér hreinlega nærist á áskorunum. Ég er samt ekki keppnismaður í þeim skilningi að ég vilji keppa við og vinna aðra. Mína keppni hái ég fyrst og fremst við sjálfan mig; Bæta tímann minn í 10 km hlaupi, lækka forgjöfina í golfi, keppa í þríþraut, teikna eina mynd á dag í eitt ár etc. Þetta eru nokkur dæmi um hve fjölbreyttar áskoranir geta verið.

Nú ætla ég að takst á við nýja áskorun, Orkugönguna sem fram fer 13. apríl. Ég hafði þann háttinn á að ég byrjaði á því að skrá mig í 60 km göngu og síðan keypti ég mér skíði. Ég er ekki einu sinni búinn að prófa þau. Ég hef eiginlega bara aldrei farið á gönguskíði. Það eru skemmtilegir tímar framundan og ljóst að maður á eftir að þurfa að hafa sig allan við til að ná settu marki. En um það snýst málið kæri lesandi.

Nú ætla ég sem fyrr segir að skora á ykkur. Ég ætla að skora á ykkur að taka áskorun. Ég ætla að skora á ykkur að standa upp og gera eitthvað nýtt. Skora á ykkur að taka ykkur eitthvað fyrir hendur sem þið óttist jafnvel pínulítið eða hafið aldrei látið ykkur dreyma um að gera. Standið upp og skráið ykkur í Orkugönguna, ákveðið að hlaupa 10 km í Mývatnsmaraþoni eða keppa á Lansmóti 50 ára og eldri. Skráið ykkur í hjólakeppni á Spáni eða sundmót í Vestmannaeyjum. Standið upp og gerið eitthvað með öðrum! Þið munið ekki sjá eftir því.

Kveðja, Bjarni