Wednesday, January 6, 2016

Lokun sundlaugar

Á síðasta fundi sveitarstjórnar fyrir áramót var ákeðið að loka sundlauginni um óákveðinn tíma frá og með 1. janúar 2016. Ákvörðunin er tekin m.t.t. þess að núverandi ástand sundlaugar, potta  og laugarsvæðis uppfyllir ekki kröfur um öryggi gesta. Einnig hefur ekki tekist að komast fyrir þrálátan leka úr sundlaugarkari. Það er því ljóst að sundlaugin og pottarnir verða ekki opnuð aftur án verulegra enduruppbyggingar. Þær framkvæmdir eru því miður ekki fyrirsjáanlegar á næstunni.

Það þýðir samt ekkert að leggja árar í bát og við skulum vona að það verði vindur í seglin á öðrum vígstöðvum. Ræktin verður áfram og íþróttir í íþróttasalnum. Við stefnum á það að keyra annað Zumba námskeið og höfum fengið fyrirspurnir varðandi morgunþrek. Sjáumst hress í spriklinu sem oftast 2016.


Kveðja, forstöðumaður

Thursday, January 22, 2015

Gildi hreyfingar

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað það er nauðsynlegt fyrir mannskepnuna að hreyfa sig ef hún ætlar að vera heilbrigð, láta sér líða vel og vera laus við sjúkleika og stress. Svo er auðvitað bara mjög lummó að sitja bara heima allan daginn eins og kartöflupoki og stynja.

Við gætum vitnað í þúsundir rannsókna til að sanna mál okkar - en við ætlum ekki að gera það. Trúið bara því sem við segjum og mætið til okkar í sund eða ræktina. Þetta snýst ekki um að vera kominn í kjólinn fyrir jólin eða líta ekki út eins og slubby joe í baðfötum á ströndinni á Ibiza í febrúar. Þetta snýst um að líða vel í eigin líkama og vera hraustur.

Til þess þarf maður að hreyfa sig.

Thursday, October 23, 2014

Vetrarstarfið


Við höfum ekki staðið okkur í að uppfæra síðuna okkar en það stendur til bóta. Hér á blogginu er hægt að finna flest allar upplýsingar um okkur og starfsemi okkar, nýuppfærðar. Ef þið finnið eitthvað athugavert megið þið endilega láta okkur vita.

Annars er allt með svipuðu sniði hjá okkur í vetur. Blak, badminton og fótbolti í salnum og ræktin á sínum stað. Stefnum fljótlega að því að byrja með einhverskonar þrektíma eða leikfimi. Það vakti mikla lukku í fyrra. Eins höfum við verið einstaklega heppin með veður og því hefur sundlaugin verið vel volg það sem af er vetri.

Eins viljum við minna á vörurnar sem við erum að selja. Hálkugorma frá Yaktrax, Speedo sundfatnað- og gleraugu og Craft útivistarfatnað. Vorum að fá nýja sendingu af Craft, þ.m.t. alveg frábærar dúnúlpur á karla í áður óþekktum gæðum og á áður óþekktu gjafaverði. Munið líka gönguskíðabuxurnar sívinsælu. Við eigum flest allt nema tóbak og kúluhatta.

Tuesday, April 1, 2014

Bætt heilsa- betra líf

Það hefur verið ágæt mæting í þrek- og jógatímana hjá okkur upp á síðkastið. Nú eru þeir öllum opnir. Hægt er að greiða fyrir stakan tíma (500 kr) eða kaupa kort í íþróttasal.  Tímarnir eru fjölbreyttir; jóga, jafvægi, styrkur, þrek og pallar.

Hér fyrir neðan má sjá tímatöfluna fyrir komandi tíma.


Kveðja, Starfsfólk

Wednesday, March 19, 2014

Geotravel gefur skjá til ÍMS

Sæmundur hjá Geotravel og Bjarni forstöðumaður ÍMS

Á dögunum barst Íþróttamiðstöðinni glæsileg gjöf frá Geotravel. Um er að ræða skjá sem settur var við hlaupabrettið. Það má því segja að útsýnið úr ræktinni hafi batnað til muna. Um er að ræða fullkominn skjá þar sem m.a. er hægt að horfa á efni af USB minnislykli. Nú geta því allir tekið með sér minnislykil og horft á skemmtilegt efni á meðan hitað er upp.

Gjafir sem þessar og stuðningur fyrirtækja í sveitinni er okkur afar mikilvægur. Geotravel hefur stutt vel við bakið á Íþróttamiðstöðinni á liðnu ári með ýmsum hætti og þökkum við þeim kærlega fyrir það.

Kveðja, Bjarni Jónasson

Tuesday, January 14, 2014

Bætt heilsa – betra líf. 

Heilsuræktar og lífsstílsnámskeið mun hefjast 25. janúar. Markmið námskeiðsins er m.a. aukin líkamleg færni, betri sjálfsmynd, betri líðan og aukin orka. Þáttakendur í námskeiðinu fá einnig fræðslu um holla næringu, líkamsbeitingu og fleira. Eftir námskeiðið á fólk að kunna skil á fjólbreyttum æfingum sem það getur stundað hvar sem er.

Unnið verður með spurninguna: Hvað er heilsa? Reynt verður að vekja fólk til umhugsunar um hversu mikil gæði felast í því að geta hreyft sig óhindrað fram á gamals aldur. Er eitthvað sem segir að við getum ekki stundað fjallgöngur og útivist, jafnvel á níræðisaldri? Lögð verður áhersla á að kenna fólki að forðast skyndilausnir og hjálpa fólki að horfa gagnrýnum augum á líkamsræktargeirann.

Námskeiðið er blanda af fyrirlestrum og æfingum í þreksal og í íþróttasal þrisvar í viku. Æfingar miða að því að þjálfa liðleika og styrk jöfnum höndum, m.a til varnar helstu hreyfikerfisvandamálum, s.s. verk í mjóbaki, öxlum og hnjám. Boðið verður upp á mælingar á þyngd, fitu, blóðþrýstingi, blóðsykri ofl í upphafi og lok námskeiðs. Námskeiðið er unnið í samvinnu við Stefán Ólafsson sjúkraþjálara á Akureyri og mun hann opna námskeiðið með fyrirlestri laugardaginn 25. janúar kl. 10.00. Takið daginn frá.

Námskeiðið er 6 vikur og verða tímar sem hér segir:

Mánudaga:       16.30 - 17.30
Miðvikudaga:   16.30 - 17.30
Laugardaga:     10.00 - 11.00

Verð á námskeiðið er 20.000 krónur. Innifalið í því er frjáls aðgangur að þreksal og sundlaug ÍMS á meðan á námskeiði stendur og aðgangur að fyrirlestrum.

Skráning í Íþróttamiðstöð og á ims@myv.is

Leiðbeinendur á námskeiði verða: Soffía Kristín, Harpa Barkar, Ásta Price og Bjarni Jónasson.