Fyrir suma verður þetta þó tímabil talsverðrar togstreitu og jafnvel samviskubits. Tímabil sem nær orðið yfir lok nóvember, allan desember og langt inn í janúar. Það má spyrja sig að því hver tilbreytingin er að borða hátíðarmatinn þegar klukkurnar loksins hringja á Aðfangadag?
Á þessum tíma hættir okkur til að skjóta öllum áformum um bætta heilsu og aukna hreyfingu á frest. "Það tekur því nú ekki að hreyfa sig úr þessu, skaðinn er skeður og sósan er farin að renna. Ég kaupi bara kort í ræktina í janúar og þá tek ég sko á því. Kaupi jafnvel dunk af próteini og slatta af L-Carnitine brennslusafa, þá lekur lýsið af mér".
Staðreyndin er hinsvegar sú, að það tekur því alltaf að gera eitthvað. Þó það sé bara smá göngutúr hér og smá sundsprettur þar. Við þurfum heldur ekki að éta allt sem við komumst yfir bara vegna þess að við erum komin af stað í ofátið og vegna þess að við átum köku í gær. Þetta er flókið samspil ýmissa þátta þar sem samviskubitið spilar sennilega stóra rullu. Nýlega voru birtar niðurstöður úr stórri rannsókn þar sem fram kom, að alkóhólistar voru þeim mun líklegri til að detta aftur í það ef þeir þjáðust af samviskubiti vegna síðasta fyllerís. Þetta verður þó ekki krufið til mergjar hér en það er gaman að velta þessu fyrir sér varðandi mat. Sennilega á nokkuð stór hluti fólks nokkuð óheilbrigt samband við mat nú til dags.
Þetta blogg átti nú aldrei að verða pólitískur vettvangur, en ég ætla þó að leyfa mér að birta nýjasta pistil Jónasar Kristjánssonar sem tekinn er af jonas.is. Þarna finnst mér Jónas hafa lög að mæla, sama hvað hann syngur aðra daga:
Matarfíkn er ein versta fíkn, sem um getur. Sú fíkn, sem erfiðast er að ráða við. Í öðrum tilvikum eru hættulegu efnin skilgreind: alkóhól, amfetamín, heróín, morfín og svo framvegis. Lausnin er þá að forðast efnin. Við vitum ekki, hvað það er í matnum, sem framkallar fíkn. Þess vegna þarf að fara eftir líkum, forðast sykur, hveiti, sterkju, fitu. Og leita lausna í hegðun. Koma okkur upp hollari lífsstíl, sem felur í sér hreyfingu, breytt mataræði og matarvenjur. Það eitt tekur á erfiðleikum fólks við að fást við matarfíkn umfram aðrar fíknir. Það gerist með breyttum huga og breyttum persónuleika.Ég vil ljúka þessari jólahugvekju með því að biðja fólk að spyrja sig einnar spurningar: "Afhverju borða ég?".
Kveðja, Forstöðumaður
No comments:
Post a Comment