Wednesday, January 9, 2013

Dagská Vetrarins

Mig langar hér að birta dagskrá ÍMS fyrir vorönn 2013. Hér birtist hún eins og hún kom út í Mýfluginni miðvikudaginn 9. janúar. Ég vil einnig minna fólk á að nýta sér tímatöfluna hér á síðunni okkar ef það vill fylgjast með hvað er í gangi. Hún er beintengd við google dagatalið okkar og því eiga nýjir viðburðir að koma inn jafnóðum.

Fréttabréf Íþróttamiðstöðvar


Skútustaðahrepps (ÍMS) fyrir „vorönn“ 2013.


Kæru sveitungar ég vil byrja á því að óska ykkur gleðilegs árs og þakka liðnar stundir. Einnig þakka ég hversu vel mér og þeim breytingum sem fylgt hafa komu minni hefur verið tekið.

Það er mín trú, að starfsemi íþróttamiðstöðva sé einhver mikilvægasta starfsemi sem fram fer í hverju samfélagi og ég er mjög ánægður með að fá tækifæri til að vinna á þessum vettvangi. Með íþrótta og tómstundastarfi höfum við tækifæri til að auka félagsþroska barna og bjartsýni, efla heilsu og leiða þau inn á brautir heilsusamlegs lífs á árum mótunar. Íþróttamiðstöðin á að vera hús slíkrar starfsemi. En hér höfum við sem eldri erum einnig tækifæri til að viðhalda heilsu okkar og efla. Þannig aukum við lífsgæði okkar mikið. Ég sé fyrir mér, að í framtíðinni muni ÍMS geta átt stóran þátt í því að fólk geti lengur lifað með reisn í sinni heimasveit. Efla þarf starfsemi sjúkraþjálfara og nuddara og bæta þá umgjörð alla. Þessi mál eru öll í skoðun.

„Ef þú hugsar ekki vel um líkamann, hvar ætlarðu þá að búa?“

Opnunartímar haldast óbreyttir enn um sinn:
Íþróttamiðstöðin er opin sem hér segir:
Mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga frá 09.00 til 19.00
Miðvikudaga frá 12.00 - 19.00
Laugardaga frá 12.00 - 16.00

Sundlaugin er opin sem hér segir:
Mánudaga til fimmtudaga frá 16.00 til 19.00
Laugardaga 12.00 til 16.00

Verðskrá
Það er jólagjöf okkar hjá ÍMS að halda óbreyttri verðskrá í sund og ræktina.
Til gaman má geta að árskort hjá okkur í ræktina kostar minna en 3 mánaða kort í líkamsræktarstöðvar á Akureyri.


Tímar í íþróttasal – Nýtt kortakerfi!
Tímar í íþróttasalnum verða með svipuðu sniði og verið hefur. Blak, badminton, fótbolti og jafnvel einhver frjáls tími. Stundatafla verður birt fljótlega en æfingar eru þegar hafnar.
Nú verður tekin upp sú nýbreytni að borgað verður fyrir tímana fyrirfram. Hægt er að kaupa stök skipti fyrir 500 kr., 10 tíma fyrir 4000 krónur og svo 30 miða kort fyrir 10.000 kr. Með þessu tel ég að komið sé til móts við sem flesta og þannig skapast aukið svigrúm fyrir fólk að prufa hina og þessa tíma. Það þarf varla að taka það fram að allir eru velkomnir.

Ljósabekkur
Ákveðið hefur verið að hætta með ljósabekkinn. Því verða ekki fleiri ljósakort seld hjá ÍMS. Þegar perurnar sem nú eru í bekknum hafa sungið sitt síðasta, mun bekkurinn hverfa á braut og fólk er því beðið um að nýta kortin sín fyrir 1. apríl 2013.

Barnagæsla
Áfram verður boðið upp á barnagæslu á mánudögum og miðvikudögum milli kl. 17.00 og 19.00. Við hvetjum fólk til að nýta sér þetta og í leiðinni styrkja starf elstu bekkinga í Reykjahlíðarskóla.

Skokkhópur og GANGA!
Starfsemi skokkhóps er með sama sniði og fyrir áramót. Við förum frá Íþróttamiðstöð alla laugardaga kl. 11.00. Við viljum ítreka að félagskapurinn er fyrir alla, líka þá sem vilja ganga í góðum félagsskap. Með vorinu er stefna að setja meiri kraft í þetta og fara minnst þrisvar í viku.

Kennsla í tækjasalnum/einkaþjálfun
Laugardaginn 19. janúar mun Skarphéðinn Freyr einkaþjálfari vera á svæðinu og kenna fólki á tækin í ræktinni og veita ráðgjöf með æfingaráætlanir. Þessi þjónusta verður öllum sem eiga þrekkort hjá ÍMS að kostnaðarlausu. Áhugasamir skrá sig hjá Bjarna.

Heilsudagur 2013
Í tengslum við komu einkaþjálfara verður blásið til mikils heilsudags laugardaginn 19. janúar. Heilbrigðisstarfsmenn verða á svæðinu og hægt verður að láta mæla blóðþrýsting, blóðsykur, púls, hæð, þyngd og fituprósentu svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður fræðsla um mataræði og næringu. Nánar auglýst í næstu viku.

Gönguskíðanámskeið
Fyrirhugað er að halda gönguskíðanámskeið laugardaginn 26. janúar. Fólk getur fengið lánuð skíði og skó á staðnum. Kennari verður Sigurgeir Stefánsson á Húsavík. Athugið að þetta verður aðeins hægt ef þátttáka verður næg. Vinsamlegast látið vita sem fyrst í síma 464-4225 eða sendið póst á ims@myv.is.

Hlakka til að sjá ykkur öll á nýja árinu

Kveðja, Bjarni Jónasson
Forstöðumaður ÍMS

No comments:

Post a Comment