Tuesday, February 12, 2013


Fyrir mér hefur gönguskíðaíþróttin ávallt litið út fyrir að vera frekar hættulaus íþrótt. Í huga manns er greipt mynd af gömlu fólki í sænskum greniskógi. Þau líða átakalaust og létt áfram á vit ævintýranna með epplamús og kexkökur í bakpokanum. Svoleiðis einhvernveginn sá ég fyrir mér að fyrsta gönguskíðaferðin mín yrði líka. Því fór víðsfjarri.

Laugardagsmorguninn 9. febrúar á því herrans ári 2013 var ég kominn upp í Hlíðarfjall á Akureyri rétt fyrir kl. 10.00 um morguninn og leist vel á aðstæður. Hiti 5°C, logn og fallegt útsýni. Konan og börnin ákváðu að fara í lyfturnar á meðan ég ætlaði að tæta upp þessa fjandans gönguskíðabraut. Ég var helvíti drjúgur með mig í Craft gallanum og það glansaði á nýju Madshús skíðin mín. Fyrir ókunnuga leit ég sennilega ekki ósvipað út eins og Bjørn Dæhlie eða Gunde Svan.

Þegar ég kom uppá gönguskíðasvæði var troðarinn að ljúka við fyrsta hringinn. Brautin lá spegilslétt og fersk fyrir framan mig, eins og akur sem beið eftir því að ég kæmi og gróðursetti - þó ekki væri nema brot - af óbeisluðum gönguskíðahæfileikum mínum. Ég sá strax að ég myndi ná gríðarlegum hraða í þessari braut. Því næst spennti ég á mig skíðin, vinkaði kumpánalega í mannin í skálanum og hélt af stað.

Rétt á undan mér var eldri maður sem fór frekar hægt yfir. Ég fór strax að hafa áhyggjur af því hvernig ég gæti farið framúr honum þar sem sporið var ekki tvöfalt.  Náði samt að róa mig niður og vera ekki með neinn æsing svona í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta. Gangan gekk nokkuð vel og ég var ánægður með skíðin. Það dróg hægt og rólega saman með okkur manninum; en svo kom fyrsta brekkan.

Í fjarlægð fylgdist ég með gamla manninum fara niður þessa aflíðandi og saklausu brekku. Hann leið niður brekkun átakalaust og var uppréttur allan tímann. Þegar ég kom í brekkuna var ég hvíldinni feginn, enda farinn að svitna. Ég var reyndar hissa hve miklum hraða ég náði. Það söng í rifflunum þegar þær þutu yfir snjáinn og maður varð að beygja sig aðeins í hnjánum og vera dúandi til að halda betur jafnvægi. Ég datt þó ekki og gat haldið göngunni áfram þegar niður var komið.

Nú sá ég hinsvegar að enn var von á brekkum; og það ekki öllum árennilegum. Sérstaklega leist mér illa á eina þeirra sem var í U-beygju. Ég róaðist samt nokkuð þegar ég sá gamla mannin renna niður hana eins og litla leikfangalest á tréspori, sem fyrr uppréttur. Þegar hann kom svo niður á flatann hélt hann áfram á sinni yfirveguðu en öruggu göngu.

Þegar ég  svo byrjaði að renna niður brekkuna fór ég að velta því fyrir mér hvernig í ósköpunum maður færi að því halda skíðunum í sporinu á svona mikilli ferð; og það í beygju. Hraðinn jókst sífellt og hvinurinn í rifflunum var nú farinn að líkjast vítisvélunum sem Sven Hassel skrifaði um í bókinni Dauðinn á skriðbeltum. Ég hélt mér dauðahaldi í stafina, beygði hnéin og hallaði mér fram. Sjónsviðið þrengdist smám saman og ég nálgaðist óðum beygjuna..... og ruðningana.

Það fór svo sem ég óttaðist mest, ég rann rakleitt út úr sporinu og stökk eins og Olav Ulland á ruðningnum. Ég stefndi á Kaldbak og útsýnið var stórfenglegt. Togari sigldi út spegilsléttan fjörðinn og Látraströndin virtist svo unaðslega nálæg og friðsæl. Nú færi að styttast í að grásleppukarlarnir fari að leggja netin. Mér varð hugsað til Guðrúnar langömmu og jólanna í Mávahlíðinni. Síðan kom skellurinn.

Ég lá í snjónum í smá stund og trúði því varla að ég væri heill. Jú það var ekki um að villast, ég gat kreppt tærnar, hreyft fingurnar, rétt úr löppunum og loks sest upp. Fegnastur var ég samt að enginn sá þetta. Ég dröslaðist aftur inn á brautina, dustaði af mér snjóinn og hélt af stað aftur. Gamli maðurinn var nú horfinn.

Þetta var aðeins fyrsta af mörgum byltum þennan dag. Ég prófaði allar útgáfur, afturábak stökk með heilli skrúfu, framheljarstökk með leggjarsnúning og hliðardýfu og þrefaldan hliðarsnúning með aftursveigðan haus og grand plúí. Jóga-gúrúinn Bikram Choudhury hefði ekki fyrir sitt litla líf geta leikið eftir þær stellingar sem ég lá í eftir sum stökkin. Eftir þetta versnaði líka brautin til muna og ég var farinn að velta því fyrir mér hvort einhverjir listamenn á sýrutrippi hafi fengið að koma að lagningu hennar!

Ég var hálf niðurdreginn þegar ég gekk með skíðin undir hendinni niður í skíðaskála aftur til að hitta fjölskylduna. Ég hafði ekki áttað mig á því að þetta sport væri aðeins á færi mestu loftfimleikamanna. Ég ályktaði sem svo, að liðið sem stundaði þetta hlyti að vera adrenalínfíklar upp til hópa. Í samanburði við þetta er Strýtan barnaleikur og fallhlífastökk hægðarleikur.

Alls fór ég 12 km í þessari fyrstu göngu og var sáttur við allt nema þessar flugferðir og brekkur. Á þetta ekki að fara fram á jafnsléttu? Eftir að hafa komið að máli við harða gönguskíðafíkla niðrí bæ, komst ég samt að því að líklega var færið óvenju slæmt, það róaði mig aðeins. Loks hitti ég Leif í Vogum í gær og hafði hann sömu sögu að segja af þessari braut þeirra Akueyringa. Hann hafði víst áhyggjur af því að trufla flugumferð þegar hann fór þarna um daginn. Það er sennilega besta að ganga bara í sinni heimasveit.

Maður má ekki vera of harður við sig eftir aðeins eina ferð og líklega verð ég að sætta mig við það að þetta krefst æfinga eins og annað sport. Það jákvæða við þetta allt saman er þó að ég get ekki beðið eftir að komast aftur á skíði.

Kveðja, Bjarni

No comments:

Post a Comment