Tuesday, February 5, 2013

Takið slaginn!

Kæri lesandi ég ætla að skora á þig. Ég ætla að skora á þig að taka áskorun.

Það er mikilvægt að takast reglulega á við nýjar áskoranir og geta aðlagast breytingum, því tilveran er síbreytileg . Ef við getum ekki brugðist við og aðlagast breytingum, þá stöndum við í stað og gerum okkur lífið erfiðara en það þarf að vera. Tilbúnar áskoranir geta því hjálpað okkur í lífinu. Þetta getur verið allt frá því að læra á hljóðfæri upp í að hlaupa maraþon.

Að fást við erfið verkefni sem krefjast skipulagningar, aga, vinnu og erfiðis geta gefið okkur afskaplega mikið. Á leiðinni kynnumst við sjálfum okkur betur og öðlumst nýja sýn á lífið og tilveruna. Þegar verkefninu líkur öðlumst við aukna trú á sjálf okkur og fyllumst stolti. Síðast en ekki síst þá líður okkur vel.

Á síðustu árum hef ég sjálfur verið að átta mig á því að viss hluti af mér hreinlega nærist á áskorunum. Ég er samt ekki keppnismaður í þeim skilningi að ég vilji keppa við og vinna aðra. Mína keppni hái ég fyrst og fremst við sjálfan mig; Bæta tímann minn í 10 km hlaupi, lækka forgjöfina í golfi, keppa í þríþraut, teikna eina mynd á dag í eitt ár etc. Þetta eru nokkur dæmi um hve fjölbreyttar áskoranir geta verið.

Nú ætla ég að takst á við nýja áskorun, Orkugönguna sem fram fer 13. apríl. Ég hafði þann háttinn á að ég byrjaði á því að skrá mig í 60 km göngu og síðan keypti ég mér skíði. Ég er ekki einu sinni búinn að prófa þau. Ég hef eiginlega bara aldrei farið á gönguskíði. Það eru skemmtilegir tímar framundan og ljóst að maður á eftir að þurfa að hafa sig allan við til að ná settu marki. En um það snýst málið kæri lesandi.

Nú ætla ég sem fyrr segir að skora á ykkur. Ég ætla að skora á ykkur að taka áskorun. Ég ætla að skora á ykkur að standa upp og gera eitthvað nýtt. Skora á ykkur að taka ykkur eitthvað fyrir hendur sem þið óttist jafnvel pínulítið eða hafið aldrei látið ykkur dreyma um að gera. Standið upp og skráið ykkur í Orkugönguna, ákveðið að hlaupa 10 km í Mývatnsmaraþoni eða keppa á Lansmóti 50 ára og eldri. Skráið ykkur í hjólakeppni á Spáni eða sundmót í Vestmannaeyjum. Standið upp og gerið eitthvað með öðrum! Þið munið ekki sjá eftir því.

Kveðja, Bjarni

No comments:

Post a Comment