Friday, December 6, 2013

Froststilla

Ljósmyndari: Egill Freysteinsson
Sveitin skartar sínu fegursta í dag eins og svo oft áður þegar frostið er mikið. Í gær var -12°C frost og vindur. Þá var ekki hundi út sigandi. Í dag er dásamlegt að vera úti og hvetjum við fólk til að nýta tækifærið og fara út og hreyfa sig. Yngvi Ragnar í Selinu hafði samband við okkur og sagðist vera búinn að fara út á Stakhólstjörn og er ísinn um 20 cm. Tilvalið að spenna á sig gönguskíðin og líða áfram í sindrandi púðrinu.

Kveðja, Starfsfólk

Friday, November 22, 2013

Skokk og ganga


Áhugafólk um skokk, göngu og aðra útiveru ætlar að hittast á laugardögum kl. 11 og hreyfa sig saman. Hægt að labba og spjalla eða hlaupa, jafnvel fara á skíði ef það er gott færi. Farið frá ÍMS á slaginu 11.00 og hægt að bregða sér í rækt eða pott á eftir. Vonumst eftir að sjá sem flesta.

Byrjum á morgun 23. nóvember.

Kveðja, Bjarni

Thursday, November 7, 2013

Líf og fjör hjá borðtennisklúbbnum Fálkakletti

Fv, Gunnar, Daníel, Brynjar, Stefán, Helgi James og Ívar. Krissi fylgist með

Líf og fjör hefur verið í kringum borðtennisstarfið hjá ÍMS í vetur. Nokkrir strákar í skólanum hafa verið mjög duglegir að mæta og eru að verða býnsa seigir í þessu. Verst að hafa ekki aðgang að þjálfara til að koma og segja þeim til.

Við höfum verið að taka borðin í gegn og vonum að við verðum komin með allavega 4 borð í gagnið fyrir jólin, jafnvel 5; Ekki veitir af.

Það er eitt sem við söknum þó sárlega. Það er að fá eldri spilara til að mæta og vera með. Borðtennissambandið hefur verið að biðla til okkar um að stofna lið til að keppa við Eyfirðinga og einhverja fleiri. Því væri gaman að fara að fá einhverja jaxla til að mæta.

Kveðja, ÍMS

Thursday, October 24, 2013

Aðventuhlaup 2013


Það er ekki seinna vænna en að fara að auglýsa Aðventuhlaup ÍMS 2013. Það verður mikið um að vera þennan dag í Mývatnssveit og upplagt að byrja daginn á skemmtilegum fjölskylduviðburði sem heppnaðist frábærlega í fyrra. Allar upplýsingar má finna hér.

Kveðja, starfsfólk ÍMS

Wednesday, September 18, 2013

Borðtennisklúbburinn Fálkaklettur

Borðtennisbyltingin er hafin!! 

Þriðjudagar kl. 18.00

Fimmtudagar kl. 17.00

Allir velkomnir

Tuesday, September 17, 2013

Vetararopnun

Jæja þá er veturinn að skella á og ekki seinna vænna en að auglýsa nýjan og breyttan opnunartíma. Einnig verða í boði fjölmargir skemmtilegir tímar í íþróttasal sem eru öllum opnir. Við hvetjum alla til að mæta og nýta sér það.

Hugsunin á bakvið nýjan og breyttan opnunartíma er í megin atriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að einfalda opnunartímann og lengja hann fram á kvöldið. Það nýtist dagvinnufólki best, en er einnig gert m.t.t. markaðsetningar og til að auðvelda ferðafólki að nýta sér aðstöðuna. Í öðru lagi næst fram nokkur sparnaður í launa- og rekstrarkostnaði. Eins og fólk eflaust veit, þá er okkur þröngur stakkur skorinn í þeim efnum.

Við viljum benda fólki sérstaklega á að nú verður húsið og sundlaugin opin á föstudögum milli kl. 12.00 og 16.00.

Íþróttamiðstöðin og sundlaugin verður opin í vetur sem hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga:     16.00 – 20.00
Föstudaga:                             12.00 – 16.00
Laugardaga:                           12.00 – 16.00

Tímar í Íþróttasal verða sem hér segir:


Mánud
Þriðjud
Miðvikud
Fimmtud
Föstud
Laugard
12.00-
13.00




Frjálst
Fótbolti
13.00-
14.00




Frjálst
Fótbolti
14.00-
15.00




Frjálst
Frjálst
15.00-
16.00




Frjálst
Frjálst
16.00-17.00






17.00-
18.00
Blak
Badminton
Blak
Borðtennis


18.00-
19.00
Blak
Borðtennis
Blak
Badminton


19.00-
20.00
Frjálst
Bandý
Fótbolti
Körfubolti



Öllum er heimilt að mæta í skipulagða og/eða frjálsa tíma í íþróttasal.

Verðaskrá:
Stakur tími:     500 kr
10 miða kort: 4.000 kr
30 miða kort: 10.000 kr

Athugið að tímar á vegum Mývetnings og tímar fyrir eldri borgara verða auglýstir síðar.


Kveðja, starfsfólk ÍMS

Tuesday, June 25, 2013

Hlaupum saman í sumar


Nú ætlum við að fara að taka upp þráðinn aftur í hlaupahópnum. Stefnum að því að fara frá sundlaug:

Þriðjudaga:    kl. 16.30
Fimmtudaga:  kl. 16.30
Laugardaga:   kl. 11.00

Hugmyndin er að hafa þetta frekar óformlegt. Fólk hittist bara, kynnir sig og ákveður hvert það vill fara og hversu langt. Undirritaður stefnir að því að vera forystusauður þegar hann er í sveitinni en er engin forsenda fyrir því að þetta geti farið fram.

Undirritaður verður ekki í sveitinni frá 29. júní til 8 júlí og þá verða aðrir bara að stíga upp leiða hópinn. Allir eru velkomnir (ferðamenn líka) og um að gera að láta orðið berast.

Sáumst í dag kl. 16.30

Kveðja, Bjarni

Monday, June 24, 2013

Fleiri sundgarpar

Óðinn Þór með viðurkenningu
Það fjölgar alltaf í hópi sundgarpa sem klára Sundmerki 2013. Til að hljóta þann heiður verða börn í Grunnskólanum í Reykjahlíð að mæta minnst 10x í sund og synda allavega 200 metra í hvert skipti. Í dag fékk Óðinn Þór 7 ára viðurkenningu fyrir að hafa náð þessum áfanga. Hann er samt hvergi nærri hættur að mæta í laugina. Framtíðarsundgarpur þar á ferð.

Kveðja, starfsfólk

Tuesday, June 4, 2013

Morgunþrek í Reykjahlíð

Morgunþrek í Reykjahlíð


Sumarið er tíminn! :) 

Morguntímar hefjast mánudaginn 24. júní
Námskeiðið er í 4 vikur en kennt verður milli 6.30 og 7,30 á morgnana 3svar í viku (mán, þrið og fim) á grasvellinum fyrir utan íþróttahúsið.

Um er að ræða sambland af hinum ýmsu íþróttagreinum. Brennsluæfingar og góðar styrktaræfingar þar sem eigin líkamsþyngd er notuð að mestu. Core-svæðið (miðsvæði líkamans) verður æft sérstaklega, æfingar með bolta, ketilbjöllur og margt annað sem hjálpar þér að komast í form en fyrst og fremst er ætlunin að hafa gaman saman og auka vellíðan.

Verð:
Allt námskeiðið – 10.000
Stakur tími – 1000 kr (Prufutími er frír)

Einnig bíð ég upp á fjarþjálfun en þá útbý ég æfingarprógramm sérsniðið að þínum þörfum, mælingar, matarprógramm (eða skilað er inn matardagbók) og eftirfylgni.
Mánuður í fullri fjarþjálfun: 10.000 kr

Morguntímar + fjarþjálfun – 16.000 kr.

Skráning á johannamb92@gmail.com eða í síma 866-8407
Aðeins 14 pláss eru í boði þannig að fyrstur pantar- fyrstur fær.

Aðeins 11.500 kr.

Skráningar í síma 866-8407 eða á netfangið johannamb92@gmail.com – skráning fyrir 6. janúar.

Kennt verður í Dansskóla Evu Karenar
Kennari: Jóhanna Marín Björnsdóttir

Hvað er Cross-Þjálfun?

Cross-Þjálfun er sambland af hinum ýmsu íþróttagreinum. Um er að ræða brennsluæfingar og góðar styrktaræfingar þar sem eigin líkamsþyngd er notuð að mestu. Core-svæðið verður æft sérstaklega, æfingar með bolta og margt fleira sem hjálpar þér að komast í form!
Aðeins 14 pláss eru í boði þannig að fyrstur pantar- fyrstur fær.

Aðeins 11.500 kr.

Skráningar í síma 866-8407 eða á netfangið johannamb92@gmail.com – skráning fyrir 6. janúar.

Kennt verður í Dansskóla Evu Karenar
Kennari: Jóhanna Marín Björnsdóttir

Hvað er Cross-Þjálfun?

Cross-Þjálfun er sambland af hinum ýmsu íþróttagreinum. Um er að ræða brennsluæfingar og góðar styrktaræfingar þar sem eigin líkamsþyngd er notuð að mestu. Core-svæðið verður æft sérstaklega, æfingar með bolta og margt fleira sem hjálpar þér að komast í form!

Þjálfari er Jóhanna Marín Björnsdóttir, starfsmaður í íþróttahúsi Skútustaðahrepps, einkaþjálfari og nemi í íþrótta- og heilsufræði við HÍ.


Thursday, May 30, 2013

Sundgarpar

Átakið Sundmerki 2013 hefur nú staðið yfir síðan í febrúar. Markmið átaksins er að fá krakka á grunnskólaaldri í Mývatnssveit til að vera duglegri að mæta í sund til að leika sér og synda. Í hvert skipti sem krakki mætir í sund og syndir 200 metra eða meira, fær hann stimpil í þar til gert kort. Á kortinu er pláss fyrir 10 stimpla og þeir sem klára kortið sitt fyrir febrúar á næsta ári fá smávægilegan vinning.

Nú þegar hafa tveir duglegir strákar klárað kortin sín og fengu þeir afhend viðurkenningarskjöl, verðlaunapening og karmellur í poka. Ekki slæmt svona síðasta skóladaginn á þessu vori.

Valur Snær fær verðlaun

Helgi James er mikill sundgarpur

Monday, May 13, 2013

Lokað í dag mánudag



Framkvæmdir hjá okkur drógust á langinn. Við verðum því að hafa lokað í dag en opnum í fyrramálið (þriðjudaginn 14. maí) kl. 09.00. Við biðjumst velvirðingar á óþægindunum sem þetta kann að valda.

Kveðja, starfsfólk

Tuesday, April 23, 2013

Hlaupahópurinn


Nú ætlum við að bæta við einum tíma í viku í skokkinu. Förum á þriðjudögum kl. 17.00 frá ÍMS. Þegar líður fram í maí bætum við einum tíma í viðbót við. Stefnum því að því að fara minnst 3var í viku í sumar.

Tímar:

Þriðjudagar kl. 17.00
Laugardagar kl. 11.00

Allir velkomnir og við viljum ítreka að þetta er fyrir alla. Það eiga allir að geta fundið sér hlaupa eða göngufélaga við hæfi. Eftir æfingu reynum við að teygja og gera æfingar.

Kveðja, fostöðumaður

Thursday, April 11, 2013

Útsala útsala!!

Nú höfum við verið að fá inn hlaupavörurnar fyrir sumarið og því ætlum við að skella á 20% afslætti á allar gönguskíðavörur. Eigum til eitthvað af jökkum, innundirfötum, hönskum, húfum, sokkum og fleira. Dæmi:

PZX innundirföt, verð: 7900 kr nú 6300kr!
PXC gönguskíðabuxur 15900kr12700kr!
Active glove gönguskíðahanskar verð 5900kr4700kr!
PXC storm gönguskíðajakki fullt verð 17900kr14000kr!
Vetrarsokkar, fullt verð 2200kr nú 1800kr!
Craft dúnúlpa með ekta dún: 50.000kr verð nú 40000kr!

Komið og kíkið á úrvalið.

Kveðja, starfsfólk

Wednesday, April 10, 2013

Skemmtilegur námskeiði lokið

Skemmtilegt hlaupanámskeið var haldið hjá okkur um síðustu helgi. Markmið námskeiðsins var að reyna að hrista saman hóp af fólki sem langar til æfa saman fyrir Mývatnsmaraþon. Farið var yfir ýmsa þætti sem gott er að hafa í huga þegar maður ætlar að byrja að hlaupa fyrir alvöru, s.s. markmiðasetningu, uppsetningu á æfingaáætlunum, púlsþjálfun og fleira. Eftir hádegi var lögð sérstök áhersla á mikilvægi góðs hlaupastíls, m.a sem forvörn gegn meiðslum.

Kennari var einn reynslumesti maraþonhlaupari landsins, Daníel Smári hjá Afreksvörum í Reykjavík.
Hann hefur nú dreift spurningalistum til þáttatakenda og mun í kjölfarið hjálpa fólki með æfingaáætlanir og "fjarstýra" hópnum.

Sem fyrr munum við halda áfram að skokka frá ÍMS á laugardagsmorgnum kl. 11.00 en reynum að fjölga æfingum með hækkandi sól. Skokkhópur fellur þó niður laugardaginn 13. apríl vegna Orkugöngu.

Kveðja, forstöðumaður

Tuesday, April 2, 2013

Hlaupanámskeið



Íþróttamiðstöð Skútustaðahrepps, Mývatnsstofa og Afreksvörur standa fyrir hlaupanámskeiði

Viltu taka þátt í Mývatnsmaraþoni? Langar þig til að byrja að hlaupa, kynnast skemmtilegum hlaupahóp og koma skipulagi á æfingar þínar. Hlaupanámskeiðið verður haldið í Íþróttamiðstöð Skútustaðahrepps laugardaginn 6. apríl. Leiðbeinandi er Daníel Smári Guðmundsson einn reynslumesti maraþonhlaupari landsins. Eftir námskeiðið verður hægt að fara í hlaupagreiningu, fá ráðleggingar um val á hlaupaskóm. Hægt verður að kaupa skó á staðnum.

Dagsrká:
10.00 Fyrirlestrar
12.00 Hádegishlé – boðið upp á léttan hádegisverð
12.30 Fyrirlestrar seinni hluti
14.00 Verklegar æfingar í sal eða úti
15.00 Hlaupagreining

Fyrir hádegi verður lögð áhersla á kenna fólki að koma skipulagi á æfingar sínar, auka getu og árangur. Einnig verður lögð áhersla á að kynna þjálfun allra helstu þátta hlaupaþjálfunnar, s.s. þol, hraða, styrk, teygjur, andlegan styrk, mikilvægi púls í þjálfun. Ennfremur, hvernig á á að setja sér markmið, æfingaáætlanir, æfinga magn, gæði æfinga. Lítillega farið í mataræði, fæðubótarefni, val á klæðnaði og hlaupameiðsl.

Eftir hádegi verður lögð áhersla á hlaupastíll og val á hlaupaskóm

Verð fyrir námskeiðið með hádegisverð er 6000 kr. en með hlaupagreiningu aðeins 8000 kr. Athugið að þarf að skrá sig sérstaklega í hlaupagreininguna.

Athugið að lágmarksfjöldi þáttakenda er 10.

Skráning og upplýsingar hjá ims@myv.is eða í símum 464-4225 og 861-0058

Bjarni Jónasson, forstöðumaður ÍMS

Monday, March 25, 2013

Opnunartími yfir páskana

Það fórst fyrir hjá okkur að setja auglýsingu í síðustu Mýflugu. Opnunartími okkar yfir páskana verður sem hér segir:

Fimmtudagur 28. mars Skírdagur Lokað
Föstudagur 29. mars Föstudagurinn langi 12-18.00
Laugardagur 30. mars Laugardagur 12-16.00
Sunnudagur 31. mars Páskadagur Lokað
Mánudagur 1. apríl Annar í páskum Lokað

Kveðja, Forstöðumaður

Saturday, March 23, 2013


Í landi Litlustrandar eftir nokkur ár. Egill í Brekku að skíða
Jæja góðir hálsar. Erum að spá í að skella okkur í "hópskíð" á morgun, sunnudaginn 23. mars. Leggjum af stað frá flugvellinum kl. 10.30 í fyrramálið. Við ætlum að haga seglum eftir vindi og fara einhvern skemmtilegan hring.

Hvetjum alla til að mæta með góða skapið. Fólk í vondu skapi samt líka velkomið - þið verðið bara aftast.

Kveðja, Forstöðumaður

Tuesday, March 12, 2013

Gönguskíðafréttir

Góðan dag

Ég var að senda út bréf á gönguskíðahópinn okkar og langar að birta það hér líka svo fleiri geti lesið.


Ég og Kobbi vorum að ræða saman áðan um færi og lagningu brautar. Kobbi og Ási gengu úr Kröflu í gær og var færið vægast sagt skelfilegt að þeirra sögn. Ís og klaki.
Við stefnum að því að reyna að æsa Stjána og Krissa upp í að mylja upp braut með troðaranum frá skíðasvæðinu í Kröflu og eitthvað suður og austur í Sandabotnaskarðið. Þetta verður þó ekki fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudaginn þar sem þeir eru á fjöllum í dag.
Það er von okkar að í framhaldinu getum við farið að hafa opið spor á þriðjudögum og fimmtudögum framvegis. Það væri þá vísir að æfingum og kjörið að hittast einhver hópur á þessum dögum. Sigurgeir á Húsavík og Skúli hafa lýst yfir áhuga á því að koma og kíkja í heimsókn einhvern daginn. Eins hafa þeir boðið okkur velkomin til Húsavíkur til að ganga.

Það styttist í Orkugönguna og því þurfum við að fara að komast eitthvað á skíði!
Raggi gerði spor á álftabárunni á föstudag. Ég hef ekki heyrt hvort það standi ennþá.
Gönguskíðakveðja, Bjarni

Friday, March 8, 2013

Spor á Skútustöðum og skokkhópur

Það hefur varla farið framhjá fólki að veðrið hefur verið vægast sagt óhagstætt til útivistar þessa vikuna. Það versta er, að við höfðum ekki einu sinni skíðafæri upp úr krafsinu. Víðast hvar er mikið harðfenni og á fáum stöðum er "ferskur" snjór að gagni.

Þó höfðum við fregnir af því að spor hafi verið gert á Álftabáru, hjá gömlu sundlauginni. Raggi tilkynnti það um hádegi í dag (föstudag). Vonum að það standi eitthvað.

Annars er skokkhópur í fyrramálið. Nú er lag að draga fram skóna og fara að hita upp fyrir Mývatnsmaraþon 2013. Þar er jú skyldumæting þangað.

Kveðja, Forstöðumaður

Monday, March 4, 2013

Lokað í dag

Mánudagur 4. mars - Lokað vegna veður!

Veðrið er afleitt. Veðurstofa Íslands spáir því að veðrið muni ekki ganga niður fyrr en um hádegi á morgun, í fyrsta lagi.

Við biðjumst velvirðingar á því ef þetta veldur einhverjum óþægindum.

Kveðja, Forstöðumaður

Wednesday, February 20, 2013

Vax eða rifflur?

Vorum að setja inn smá fróðleik um hvort fólk eigi að velja áburðarskíði eða riffluð. Pistilinn er hægt að sjá hér eða undir Fróðleikur.

Vorum að fá í hús Zero- Extreme Craft- buff. 4500 kr.


Vorum einnig að fá Bliz Velo skíðagöngu, hlaupa og hjóla- sólgleraugu með 2 auka linsum, hulstri og klút. Aðeins 12.995 kr.


Kveðja, starfsfólk

Monday, February 18, 2013

Aðbúnaður verkafólks.

Bjössi að þrífa laugina
Verkin ganga ekki alltaf eins og við viljum að þau geri. Þá er um að gera að hugsa út fyrir kassann. Hér má sjá starfsmann mánaðarins hjá ÍMS, Sigurbjörn Reyni (Bjössa) ryksuga laugina nú í morgun. Nú er laugin ekki bara akkúrat passlega heit, heldur einnig svo hrein og fín að eftir er tekið. Þið bara verðið að mæta í sund í kvöld og tékka á þessu.

Kveðja, starfsmenn ÍMS

Saturday, February 16, 2013

Skíðað í kringum Belg


Á morgun sunnudag (17.02.13)  mun nýstofnuð gönguskíðadeild Mývetnings standa fyrir göngu í kringum Vindbelg. Lagt verður af stað frá hlaðinu í Vagnbrekku kl. 10.30 undir leiðsögn Egils bónda. Kaffiveitingar verða að göngu lokinni.

Annars er frábært færi til göngu á vatninu í dag og í gær. Þeir sem eru kunnugir á vatninu ættu ekki að láta það framhjá sér fara og spenna á sig skíðin.

Kveðja, nefndin

Tuesday, February 12, 2013


Fyrir mér hefur gönguskíðaíþróttin ávallt litið út fyrir að vera frekar hættulaus íþrótt. Í huga manns er greipt mynd af gömlu fólki í sænskum greniskógi. Þau líða átakalaust og létt áfram á vit ævintýranna með epplamús og kexkökur í bakpokanum. Svoleiðis einhvernveginn sá ég fyrir mér að fyrsta gönguskíðaferðin mín yrði líka. Því fór víðsfjarri.

Laugardagsmorguninn 9. febrúar á því herrans ári 2013 var ég kominn upp í Hlíðarfjall á Akureyri rétt fyrir kl. 10.00 um morguninn og leist vel á aðstæður. Hiti 5°C, logn og fallegt útsýni. Konan og börnin ákváðu að fara í lyfturnar á meðan ég ætlaði að tæta upp þessa fjandans gönguskíðabraut. Ég var helvíti drjúgur með mig í Craft gallanum og það glansaði á nýju Madshús skíðin mín. Fyrir ókunnuga leit ég sennilega ekki ósvipað út eins og Bjørn Dæhlie eða Gunde Svan.

Þegar ég kom uppá gönguskíðasvæði var troðarinn að ljúka við fyrsta hringinn. Brautin lá spegilslétt og fersk fyrir framan mig, eins og akur sem beið eftir því að ég kæmi og gróðursetti - þó ekki væri nema brot - af óbeisluðum gönguskíðahæfileikum mínum. Ég sá strax að ég myndi ná gríðarlegum hraða í þessari braut. Því næst spennti ég á mig skíðin, vinkaði kumpánalega í mannin í skálanum og hélt af stað.

Rétt á undan mér var eldri maður sem fór frekar hægt yfir. Ég fór strax að hafa áhyggjur af því hvernig ég gæti farið framúr honum þar sem sporið var ekki tvöfalt.  Náði samt að róa mig niður og vera ekki með neinn æsing svona í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta. Gangan gekk nokkuð vel og ég var ánægður með skíðin. Það dróg hægt og rólega saman með okkur manninum; en svo kom fyrsta brekkan.

Í fjarlægð fylgdist ég með gamla manninum fara niður þessa aflíðandi og saklausu brekku. Hann leið niður brekkun átakalaust og var uppréttur allan tímann. Þegar ég kom í brekkuna var ég hvíldinni feginn, enda farinn að svitna. Ég var reyndar hissa hve miklum hraða ég náði. Það söng í rifflunum þegar þær þutu yfir snjáinn og maður varð að beygja sig aðeins í hnjánum og vera dúandi til að halda betur jafnvægi. Ég datt þó ekki og gat haldið göngunni áfram þegar niður var komið.

Nú sá ég hinsvegar að enn var von á brekkum; og það ekki öllum árennilegum. Sérstaklega leist mér illa á eina þeirra sem var í U-beygju. Ég róaðist samt nokkuð þegar ég sá gamla mannin renna niður hana eins og litla leikfangalest á tréspori, sem fyrr uppréttur. Þegar hann kom svo niður á flatann hélt hann áfram á sinni yfirveguðu en öruggu göngu.

Þegar ég  svo byrjaði að renna niður brekkuna fór ég að velta því fyrir mér hvernig í ósköpunum maður færi að því halda skíðunum í sporinu á svona mikilli ferð; og það í beygju. Hraðinn jókst sífellt og hvinurinn í rifflunum var nú farinn að líkjast vítisvélunum sem Sven Hassel skrifaði um í bókinni Dauðinn á skriðbeltum. Ég hélt mér dauðahaldi í stafina, beygði hnéin og hallaði mér fram. Sjónsviðið þrengdist smám saman og ég nálgaðist óðum beygjuna..... og ruðningana.

Það fór svo sem ég óttaðist mest, ég rann rakleitt út úr sporinu og stökk eins og Olav Ulland á ruðningnum. Ég stefndi á Kaldbak og útsýnið var stórfenglegt. Togari sigldi út spegilsléttan fjörðinn og Látraströndin virtist svo unaðslega nálæg og friðsæl. Nú færi að styttast í að grásleppukarlarnir fari að leggja netin. Mér varð hugsað til Guðrúnar langömmu og jólanna í Mávahlíðinni. Síðan kom skellurinn.

Ég lá í snjónum í smá stund og trúði því varla að ég væri heill. Jú það var ekki um að villast, ég gat kreppt tærnar, hreyft fingurnar, rétt úr löppunum og loks sest upp. Fegnastur var ég samt að enginn sá þetta. Ég dröslaðist aftur inn á brautina, dustaði af mér snjóinn og hélt af stað aftur. Gamli maðurinn var nú horfinn.

Þetta var aðeins fyrsta af mörgum byltum þennan dag. Ég prófaði allar útgáfur, afturábak stökk með heilli skrúfu, framheljarstökk með leggjarsnúning og hliðardýfu og þrefaldan hliðarsnúning með aftursveigðan haus og grand plúí. Jóga-gúrúinn Bikram Choudhury hefði ekki fyrir sitt litla líf geta leikið eftir þær stellingar sem ég lá í eftir sum stökkin. Eftir þetta versnaði líka brautin til muna og ég var farinn að velta því fyrir mér hvort einhverjir listamenn á sýrutrippi hafi fengið að koma að lagningu hennar!

Ég var hálf niðurdreginn þegar ég gekk með skíðin undir hendinni niður í skíðaskála aftur til að hitta fjölskylduna. Ég hafði ekki áttað mig á því að þetta sport væri aðeins á færi mestu loftfimleikamanna. Ég ályktaði sem svo, að liðið sem stundaði þetta hlyti að vera adrenalínfíklar upp til hópa. Í samanburði við þetta er Strýtan barnaleikur og fallhlífastökk hægðarleikur.

Alls fór ég 12 km í þessari fyrstu göngu og var sáttur við allt nema þessar flugferðir og brekkur. Á þetta ekki að fara fram á jafnsléttu? Eftir að hafa komið að máli við harða gönguskíðafíkla niðrí bæ, komst ég samt að því að líklega var færið óvenju slæmt, það róaði mig aðeins. Loks hitti ég Leif í Vogum í gær og hafði hann sömu sögu að segja af þessari braut þeirra Akueyringa. Hann hafði víst áhyggjur af því að trufla flugumferð þegar hann fór þarna um daginn. Það er sennilega besta að ganga bara í sinni heimasveit.

Maður má ekki vera of harður við sig eftir aðeins eina ferð og líklega verð ég að sætta mig við það að þetta krefst æfinga eins og annað sport. Það jákvæða við þetta allt saman er þó að ég get ekki beðið eftir að komast aftur á skíði.

Kveðja, Bjarni

Monday, February 11, 2013

Idiot-proof skíðaáburður kominn í hús

Vorum að fá í hús skíðaáburð sem allir geta notað. Áburðurinn er fljótlegur og einfaldur í notkun og bæði ver skíðin og gefur betra rennsli. Virkar fyrir öll hitastig. Þú berð á skíðin með svampi sem er fremst á brúsanum. Alveg eins og að bera á skó. Fínt fyrir riffluð gönguskíði, svigskíði og bretti.

Minnum á gönguskíðafundinn sem verður í kvöld í ÍMS kl. 20.00. Rætt verður um stofnun gönguskíðadeildar innan Mývetnings, lagningu spora ofl.

Forstöðumaður

Friday, February 8, 2013

Næstu dagar

Gönguskíðaspor: Spor var gert í Kröflu í dag (08.02.2013) með troðara. Vonandi helst það gott allavega á morgun, laugardag.

Sel Hótel Mývatn á Skútustöðum hefur haldið opnum sporum síðustu daga. Svo verður áfram um helgina.

Skokkhópur. Skokkhópseinvaldurinn er á Akureyri. Fólk er þó hvatt til að mæta á morgun, laugardag.

Fundur á mánudag. Eins og auglýst var í Mýflugunni síðustu þá er gönguskíðafundur á mánudaginn kl. 20.00 í ÍMS. Rætt um stofnun gönguskíðadeildar innan Mývetnings, gerð spora, aðstöðu ofl.

Kveðja, forstöðumaður.

Thursday, February 7, 2013

Upprifjun frá gönguskíðanámskeiðinu



Eins og einhverjir kunna að muna, þá mælti Sigurgeir gönguskíðakennari með því að fólk færi á youtube.com til að skoða kennslumyndbönd fyrir gönguskíði. Hér er eitt ágætt og sennilega ekki vitlaust að æfa sig aðeins staflaust.

Kveðja, forstöðumaður

Tuesday, February 5, 2013

Takið slaginn!

Kæri lesandi ég ætla að skora á þig. Ég ætla að skora á þig að taka áskorun.

Það er mikilvægt að takast reglulega á við nýjar áskoranir og geta aðlagast breytingum, því tilveran er síbreytileg . Ef við getum ekki brugðist við og aðlagast breytingum, þá stöndum við í stað og gerum okkur lífið erfiðara en það þarf að vera. Tilbúnar áskoranir geta því hjálpað okkur í lífinu. Þetta getur verið allt frá því að læra á hljóðfæri upp í að hlaupa maraþon.

Að fást við erfið verkefni sem krefjast skipulagningar, aga, vinnu og erfiðis geta gefið okkur afskaplega mikið. Á leiðinni kynnumst við sjálfum okkur betur og öðlumst nýja sýn á lífið og tilveruna. Þegar verkefninu líkur öðlumst við aukna trú á sjálf okkur og fyllumst stolti. Síðast en ekki síst þá líður okkur vel.

Á síðustu árum hef ég sjálfur verið að átta mig á því að viss hluti af mér hreinlega nærist á áskorunum. Ég er samt ekki keppnismaður í þeim skilningi að ég vilji keppa við og vinna aðra. Mína keppni hái ég fyrst og fremst við sjálfan mig; Bæta tímann minn í 10 km hlaupi, lækka forgjöfina í golfi, keppa í þríþraut, teikna eina mynd á dag í eitt ár etc. Þetta eru nokkur dæmi um hve fjölbreyttar áskoranir geta verið.

Nú ætla ég að takst á við nýja áskorun, Orkugönguna sem fram fer 13. apríl. Ég hafði þann háttinn á að ég byrjaði á því að skrá mig í 60 km göngu og síðan keypti ég mér skíði. Ég er ekki einu sinni búinn að prófa þau. Ég hef eiginlega bara aldrei farið á gönguskíði. Það eru skemmtilegir tímar framundan og ljóst að maður á eftir að þurfa að hafa sig allan við til að ná settu marki. En um það snýst málið kæri lesandi.

Nú ætla ég sem fyrr segir að skora á ykkur. Ég ætla að skora á ykkur að taka áskorun. Ég ætla að skora á ykkur að standa upp og gera eitthvað nýtt. Skora á ykkur að taka ykkur eitthvað fyrir hendur sem þið óttist jafnvel pínulítið eða hafið aldrei látið ykkur dreyma um að gera. Standið upp og skráið ykkur í Orkugönguna, ákveðið að hlaupa 10 km í Mývatnsmaraþoni eða keppa á Lansmóti 50 ára og eldri. Skráið ykkur í hjólakeppni á Spáni eða sundmót í Vestmannaeyjum. Standið upp og gerið eitthvað með öðrum! Þið munið ekki sjá eftir því.

Kveðja, Bjarni

Wednesday, January 30, 2013

Svona á þetta að vera!


Það er sko búið að vera líf og fjör í ÍMS í dag. Stórhríðinni hefur slotað og fólk sennilega fegið að komast út aftur. Ég segi ekki að það sé eins og beljur að vori, en allt að því. Líf og fjör. Fullt af fólki hefur komið og synt, ræktin hefur verið vel nýtt og nú síðast 17 manns í blak! Svo er fótboltinn eftir kl. 19.00.


Þetta þýðir líka að nóg hefur verið að gera hjá Sonju og Ingimari Atla í barnagæslunni. Sú þjónusta verður líkast til vel nýtt það sem eftir lifir vetrar. Svona á þetta að vera!

Kveðja, Forstöðumaður

Tuesday, January 29, 2013

Frábært gönguskíðanámskeið að baki

Steina og Sæmi
Gönguskíðanámskeiðið sem fram fór um helgina heppnaðist í alla staði vel og mæting var frábær. Alls mættu 30 manns, bæði börn og fullorðnir. Það er ljóst að mikil vakning er í gönguskíðamennskunni um land allt. Það mætti kannski segja að tími sé kominn til að Mývetningar fari að láta til sín taka í skíðagöngunni aftur, enda annálaðir göngugarpar fyrr á árum. Nú er mikilvægt að fylgja þessu eftir með fleiri námskeiðum og uppákomum. Raddir voru uppi um að stofnuð yrði gönguskíðadeild innan Mývetnings.

Kennari á námskeiðinu var Sigurgeir Stefánsson frá Húsavík og honum til aðstoðar var Skúli í Hólmum. Byrjað var á að fara yfir helstu atriði sem ber að hafa í huga við val á gönguskíðum og búnaði en einnig fjallað aðeins um tæknileg atriði. Í kjölfarið var keyrt út að Hlíðarrétt þar sem verklega kennslan fór fram. Þar sýndu leiðbeinendur hvernig ætti að bera sig að og leiðbeindu fólki svo í kjölfarið. Fólk gekk hring eftir hring og var mál manna að miklar framfarir væru hjá flestum á stuttum tíma. Kennarar fullyrtu að margir færu létt með 20 km í Orkugöngunni nú í apríl og inn á milli væri fólk sem ætti að geta æft sig upp í 60 kílómetrana á þessum rúmu 2 mánuðum sem eru til stefnu.

En við látum þetta gott heita í bili og bendum á myndaalbúm þar sem hægt er að skoða nokkrar myndir frá námskeiðinu. Að lokum viljum við þakka Björgunarsveitinni Stefáni sérstaklega fyrir hjálpina við að gera spor  fyrir okkur.

Sigurgeir spjallar við fólkið

Fólk að verða tilbúið í gönguna
Kveðja, Forstöðumaður

Thursday, January 24, 2013

Sund sund sund


Frábær mæting hefur verið í sund eftir áramótin. Það er kannski af sem áður var, að pottarnir séu kraumandi af þjóðfélagsumræðum, en stemmningin er engu að síður góð. Flestir líta svo á að Jarðböðin hafi tekið við því hlutverki sem sundlaugin hafði áður, þ.e. að vera staður þar sem fólk hittist í rólegheitum og ræðir málin. Maður tekur líka eftir breyttu mynstri frá því í gamla daga. Hér hefur meira farið fyrir því upp á síðkastið að fólk sé mætt til þess að synda og við fögnum því auðvitað.

Nokkrar áhugverðar staðreyndir um sund:

  1. Til eru fornar egypskar myndir af sundmönnum frá 2500 fk.
  2. Sund tekur á alla stærri vöðvahópa líkamans
  3. Sund minnkar stress (eins og önnur hreyfing)
  4. Þú getur synt fram á síðustu ár ævinnar
  5. Fer vel með liði og bein
  6. Þú getur brennt 650 kkal/klst með rösku sundi
  7. Bringusund er hægasta sundið og elsta "sundtakið"
  8. Skriðsund snýst nánast bara um tækni
Gott er að ljúka þessum pistli með myndbandi sem sýnir hversu átakalítið skriðsund getur verið sé það rétt framkvæmt. Sundmaðurinn á myndinni gæti haldið áfram að synda svona tugi km!


Kveðja, forstöðumaður

Tuesday, January 22, 2013

Gönguskíðin komin

Vorum að fá í hús sýnishorn af skíðum. Þrjár stærðir af gönguskíðum frá Madshus, stafi, bindingar og skó. Við bjóðum upp á þessar vörur á frábæru verði:

Skíði 28.995 kr.
Stafir 9.900 kr.
Skór 24.995 kr.
Bindingar 12.995 kr.

Byrjendapakki fyrir fullorðna 59.995 kr. (20.000 kr. afsláttur)
Byrjendapakki fyrir börn 28.995 kr.(ekki til á staðnum)

Þetta eru ekki margar áfyllingar á bílinn!

Kíkjið við og skoðið gönguskíðavörurnar okkar frá Craft og Madshus. Ódauðleg blanda!

Kveðja, forstöðumaður


Monday, January 21, 2013

Heilsudagurinn mikli

Skarphéðinn að þruma yfir mannskapnum
Á laugardaginn síðasta var Heilsudagurinn mikli hjá okkur. Margt var í boði, kennsla í tækjasal, mælingar á blóðsykri- og þrýstingi, hæð, þyngd og fleira. Síðan lukum við deginum með smá fyrirlestri þar sem Skarphéðinn Freyr einkaþjálfari fór yfir mataræðið, sem er jú lykillinn bæði að heilsu og árangri í líkamsrækt. Frábær mæting á þennan fyrirlestur sýnir, svo ekki verður um villst, að grundvöllur er fyrir að hafa oftar spennandi fyrirlestra.

Við viljum þakka öllum sem komu að þessum degi með einhverju hætti kærlega fyrir. Sérstaklega Dagbjörtu og Öglu frá Lyfju og Heilsugæslunni og svo Skarphéðni sem gerði sér ferð norður yfir heiðar. Að lokum viljum við þakka þeim fjölmörgu gestum sem komu við og nutu dagsins. Við eigum eftir að taka endanlega saman hve margir komu en það var allavega yfir 50 manns sem komu í húsið. Minnst 13% sveitarinnar!!!! 

Kveðja, Forstöðumaður

Tuesday, January 15, 2013

Badminton í kvöld

Blakæfing hjá Mývetningi
Í kvöld er badmintonæfing. Það er tilfinning okkar hjá ÍMS að veturinn í vetur verði mikill badmintonvetur, enda frábær íþrótt. Það er nokkuð misjafnt eftir því hvaða gögn eru skoðuð hvar badminton flokkast á vinsældarskalanum í heiminum. Það er þó ljóst, að badminton er allavega ein af 5 vinsælustu íþróttum í heimi þegar litið er til ástundunar almennings. Vissuð þið að badminton er hraðasta "spaðaíþróttin"? Fokkan getur náð allt að 300 km/klst þegar hún fer af spaðanum! Hún fer því hraðar en tennisbolti og veggtennisbolti. Vissuð þið að í einum leik getur hver leikmaður farið um 2 km og bestu fokkurnar eru búnar til úr vinstri vængnum af gæsum! Magnaðar staðreyndir.

Eftir badminton í kvöld er frjáls tími í sal. Þeir sem eiga kort eða borga 500 kall geta skellt sér í bandý, körfu eða bara legið á miðju gólfinu og slappað af. Svo lengi sem fólk er í fötum og fer ekki að slást þá er okkur sama.

Annars er sundlaugin 30°C, bottarnir frábærir og kaffi á könunni.

Kveðja, Forstöðumaður

Wednesday, January 9, 2013

Dagská Vetrarins

Mig langar hér að birta dagskrá ÍMS fyrir vorönn 2013. Hér birtist hún eins og hún kom út í Mýfluginni miðvikudaginn 9. janúar. Ég vil einnig minna fólk á að nýta sér tímatöfluna hér á síðunni okkar ef það vill fylgjast með hvað er í gangi. Hún er beintengd við google dagatalið okkar og því eiga nýjir viðburðir að koma inn jafnóðum.

Fréttabréf Íþróttamiðstöðvar


Skútustaðahrepps (ÍMS) fyrir „vorönn“ 2013.


Kæru sveitungar ég vil byrja á því að óska ykkur gleðilegs árs og þakka liðnar stundir. Einnig þakka ég hversu vel mér og þeim breytingum sem fylgt hafa komu minni hefur verið tekið.

Það er mín trú, að starfsemi íþróttamiðstöðva sé einhver mikilvægasta starfsemi sem fram fer í hverju samfélagi og ég er mjög ánægður með að fá tækifæri til að vinna á þessum vettvangi. Með íþrótta og tómstundastarfi höfum við tækifæri til að auka félagsþroska barna og bjartsýni, efla heilsu og leiða þau inn á brautir heilsusamlegs lífs á árum mótunar. Íþróttamiðstöðin á að vera hús slíkrar starfsemi. En hér höfum við sem eldri erum einnig tækifæri til að viðhalda heilsu okkar og efla. Þannig aukum við lífsgæði okkar mikið. Ég sé fyrir mér, að í framtíðinni muni ÍMS geta átt stóran þátt í því að fólk geti lengur lifað með reisn í sinni heimasveit. Efla þarf starfsemi sjúkraþjálfara og nuddara og bæta þá umgjörð alla. Þessi mál eru öll í skoðun.

„Ef þú hugsar ekki vel um líkamann, hvar ætlarðu þá að búa?“

Opnunartímar haldast óbreyttir enn um sinn:
Íþróttamiðstöðin er opin sem hér segir:
Mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga frá 09.00 til 19.00
Miðvikudaga frá 12.00 - 19.00
Laugardaga frá 12.00 - 16.00

Sundlaugin er opin sem hér segir:
Mánudaga til fimmtudaga frá 16.00 til 19.00
Laugardaga 12.00 til 16.00

Verðskrá
Það er jólagjöf okkar hjá ÍMS að halda óbreyttri verðskrá í sund og ræktina.
Til gaman má geta að árskort hjá okkur í ræktina kostar minna en 3 mánaða kort í líkamsræktarstöðvar á Akureyri.


Tímar í íþróttasal – Nýtt kortakerfi!
Tímar í íþróttasalnum verða með svipuðu sniði og verið hefur. Blak, badminton, fótbolti og jafnvel einhver frjáls tími. Stundatafla verður birt fljótlega en æfingar eru þegar hafnar.
Nú verður tekin upp sú nýbreytni að borgað verður fyrir tímana fyrirfram. Hægt er að kaupa stök skipti fyrir 500 kr., 10 tíma fyrir 4000 krónur og svo 30 miða kort fyrir 10.000 kr. Með þessu tel ég að komið sé til móts við sem flesta og þannig skapast aukið svigrúm fyrir fólk að prufa hina og þessa tíma. Það þarf varla að taka það fram að allir eru velkomnir.

Ljósabekkur
Ákveðið hefur verið að hætta með ljósabekkinn. Því verða ekki fleiri ljósakort seld hjá ÍMS. Þegar perurnar sem nú eru í bekknum hafa sungið sitt síðasta, mun bekkurinn hverfa á braut og fólk er því beðið um að nýta kortin sín fyrir 1. apríl 2013.

Barnagæsla
Áfram verður boðið upp á barnagæslu á mánudögum og miðvikudögum milli kl. 17.00 og 19.00. Við hvetjum fólk til að nýta sér þetta og í leiðinni styrkja starf elstu bekkinga í Reykjahlíðarskóla.

Skokkhópur og GANGA!
Starfsemi skokkhóps er með sama sniði og fyrir áramót. Við förum frá Íþróttamiðstöð alla laugardaga kl. 11.00. Við viljum ítreka að félagskapurinn er fyrir alla, líka þá sem vilja ganga í góðum félagsskap. Með vorinu er stefna að setja meiri kraft í þetta og fara minnst þrisvar í viku.

Kennsla í tækjasalnum/einkaþjálfun
Laugardaginn 19. janúar mun Skarphéðinn Freyr einkaþjálfari vera á svæðinu og kenna fólki á tækin í ræktinni og veita ráðgjöf með æfingaráætlanir. Þessi þjónusta verður öllum sem eiga þrekkort hjá ÍMS að kostnaðarlausu. Áhugasamir skrá sig hjá Bjarna.

Heilsudagur 2013
Í tengslum við komu einkaþjálfara verður blásið til mikils heilsudags laugardaginn 19. janúar. Heilbrigðisstarfsmenn verða á svæðinu og hægt verður að láta mæla blóðþrýsting, blóðsykur, púls, hæð, þyngd og fituprósentu svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður fræðsla um mataræði og næringu. Nánar auglýst í næstu viku.

Gönguskíðanámskeið
Fyrirhugað er að halda gönguskíðanámskeið laugardaginn 26. janúar. Fólk getur fengið lánuð skíði og skó á staðnum. Kennari verður Sigurgeir Stefánsson á Húsavík. Athugið að þetta verður aðeins hægt ef þátttáka verður næg. Vinsamlegast látið vita sem fyrst í síma 464-4225 eða sendið póst á ims@myv.is.

Hlakka til að sjá ykkur öll á nýja árinu

Kveðja, Bjarni Jónasson
Forstöðumaður ÍMS

Monday, January 7, 2013

Gönguskíði


Nú hefur verið bætt við síðuna okkar nýrri undirsíðu sem nefnist "Gönguskíði". Þar er ætlunin að birta upplýsingar um hvort og hvar séu opin gönguskíðaspor í Mývatnssveit. Aðdragandi þessa er sá, að aðili frá Skíðasambandi Íslands hafði samband við Jakob Stefáns (Kobba) og spurðist fyrir um hvort hægt væri að nálgast slíkar upplýsingar á einum stað. Úr varð að við ákváðum að hýsa þetta hér á síðu ÍMS.

Það er von okkar að þetta verði til þess að fleiri muni leggja leið sína í sveitina til þess að fara á gönguskíði. Enn fremur vonum við að þetta muni efla gönguskíðamenningu Mývetninga og verða þeim hvatning til þess að draga fram skíðin.

Smellið hér til að skoða síðuna

Kveðja, Bjarni

Wednesday, January 2, 2013

Gleðilegt nýtt ár!


Gleðilegt nýtt ár kæru sveitungar og takk fyrir samveruna á liðnu ári! Ég vil byrja á því að segja að ég er afskaplega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma að rekstri Íþróttamiðstöðvar Skútustaðahrepps. Mér finnst að mér hafa verið vel tekið og að fólk sé yfirleitt nokkuð jákvætt gagnvart þeim breytingum sem hafa fylgt komu minni. Þær munu verða fleiri.

Þar sem ekki er komin fastmótuð dagskrá fyrir komandi mánuði, "vorönn 2012", þá vildi ég setja inn smá yfirlit yfir hvað verður sennilega í gangi.

Opnunartímar: Haldast óbreyttir að sinni

Tímar í íþróttasal:
Blaktímar verða sem fyrr á mánudögum og miðvikudögum milli 17 og 19. Badminton verður að öllum líkindum tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum milli 17 og 18. Við stefnum að því að hafa fótbolta allavega 1x í viku, helst 2x. Þessi mál eru í skoðun.

Þrektímar: Það er til skoðunar að vera með hóptíma í þreki/æfingum. Tímarnir/námskeiðið gæti farið fram í þreksal, í íþróttasal og úti á víxl.

Gönguskíðanámskeið: Til skoðunar er að fá gönguskíðaþjálfara til að koma og halda námskeið.

Ég er líka alltaf til í að skoða spennandi hugmyndir ef fólk lumar á þeim. Við látum þetta gott heita að sinni.

Kveðja, Bjarni