Fróðleikur

Áburðarskíði eða riffluð?


Grein tekin af Nordic Ski COLORADO - The Official Cross-Country Ski Guide
www.crosscountryskicolorado.com/gear/waxdebate.html
Þýtt af Bjarna Jónassyni

Ef þú hefur einhverntíman verið í kringum gönguskíðafólk, þá hlýturðu að hafa heyrt fólk þrátta um hvort séu betri kostur, áburðarskíði eða riffluð. Það er ekkert rétt svar í þessu og þetta fer eftir því hver ætlar að nota skíðin. Keppnismenn munu nánast alltaf vilja hraða og eiginleika áburðarskíðanna en leikmenn gætu valið hvort sem er. Það fer m.a eftir því hvar þeir ætla skíða og hvernig. Yfirleitt er þó mælt með að byrjendur velji riffluð skíði til að einfalda þeim lífið.

„Riffluð skíði eru frábær fyrir byrjendur þar sem þau eru nánast viðhaldsfrí og virka alltaf“, segir Bernie Frey frá Gold Run Nordic Center in Breckenridge.

Ef snjórinn og færið er sæmilegt þá er bara að smella sér í bindingarnar og fara af stað. Rifflurnar munu grípa í sporið og þið getið brunað um brautirnar án þess að vera spólandi í sporinu. Hinsvegar geta komið upp þær aðstæður þar sem þið óskið ykkur þess að þið séuð á áburðarskíðum. Þetta á t.d við um það þegar það er ísing í brautinni eða á undirlaginu. Þá getur maður lent í "spóli".

Lowell McCoy, sérfræðingur í skíðagöngu hjá Gold Run Nordic Center, mælir með að menn séu á riffluðum skíðum þar til farið er að hægja það mikið á framförum að hin skíðin bæti einhverju við. „Þú munt fórna hraða, en riffluð skíði fyrirgefa mun meira og eru einfaldari í umhirðu sem er mjög jákvætt á meðan þú ert að ná tökum á þessu“. Þarna er því tækifæri til að ná góðum tökum á tækninni án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort þú settir réttan áburð undir.

En áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að það getur valdið misskilningi að kalla riffluð skíði „áburðarlaus“. Þau munu alltaf þurfa einhverja vörn og viðhald en það er bara ekki nærri jafn flókið. Þá er einna helst verið að tala um smá rennslisáburð fremst og aftast á skíðin.

Þeir sem eru að leita að hámarks rennsli, hraða og árangri munu þó yfirleitt alltaf velja áburðarskíði. Hér verður að hafa í huga að áburðarskíði verða þó aldrei betri heldur en vinnan sem lögð er í að bera á þau. Hér þarf að hafa kunnáttu á áburði og meðferð hans. Þetta krefst þess jafnvel að menn fari á námskeið.

Að bera á skíði er mjög einfalt, en að gera það þannig að skíðin renni áreynslulaust yfir snjóinn er list sem krefst jafnvel áralangrar reynslu. Hér er annarsvegar verið að tala um að bera framan- og aftantil á skíðin þar til gerðan rennslisáburð, auk þess sem smyrja þarf undir mið skíðin klístri sem grípur í snjóinn þegar maður spyrnir sér áfram. Trikkið er að vita hvar á að setja klístrið og hvernig á að bera á fyrir mismunandi hitastig og færi. Áburðinn þarf að setja á reglulega yfir tímabilið; klístrið þarf hinsvegar að setja á í hvert skipti.

Sama hvað þú munt velja, gríptu þá skíðin og komdu þér út að skíða!

Hér hef ég þýtt eftir bestu getu þennan stutta pistil um val á skíðum. Ég vil samt benda fólki á að endalaust framboð er á ýmiskonar fróðleik um skíði og áburð á netinu.

Að lokum vil ég benda á að nokkur startkostnaður er að koma sér upp öllum þeim búnaði og efnum sem þarf til að bera undir skíði svo vel megi vera. Sjálfsagt skilar það sér samt aftur í gleði og árangri þegar gengið er.

Kveðja, Bjarni

Vetrarhlaup

Mynd fengin að láni hjá http://www.ttv.is/en

Þó að það komi vetur er ekki þar með sagt að við þurfum að hætta að hlaupa úti. Með réttum búnaði og hugarfari geta vetrarhlaupin verið einhver bestu og skemmtilegustu hlaupin sem við komumst í. Sumir verða jafnvel háðir þeim. Fólk fer á gönguskíði í snjó og kulda, afhverju ekki að hlaupa? Tölum nú ekki um í þessu ótrúlega umhverfi sem við búum í. En það er nokkur ráð sem ágætt er að hafa í huga.

Jákvætt hugarfar. Að komast út um hurðina heima hjá sér er stærsta skrefið og reynist fólki oft ofviða. Eftir 5 mínútna upphitun er hinsvegar allt gleymt og veðrið skiptir engu máli.

Markmið. Það er lang auðveldast að æfa hafi maður einhver skýr markmið. Setjið t.d stefnuna á að hlaupa 10 km í næsta Mývatnsmaraþoni eða 5 km án þess að stoppa í Aðventuhlaupinu sem verður í desember. Nú verður auðveldara að drífa sig af stað.

Félagskapur. Hlaupið með félaga eða í hóp (Skokkhópnum að sjálfsögðu). Já eða bara hundinum eða gullfisknum. Það er auðveldara og öruggara að hafa félagskap og maður vill ekki svíkja félagana og drífur sig af stað.

Hlý föt. Vertu í hlýjum fötum en ekki of hlýjum. Það er eiginlega best að vera pínu kalt þegar maður fer af stað. Það er kannski ekki heillandi að fara út í frost í þunnum jakka en það er mun skárra en að stikna einhverstaðar löðursveittur á miðri leið. Fórnum þægindum í byrjum fyrir frammistöðu seinna í hlaupinu.

Skórnir. eru líka mikilvægir í vetrarhlaupunum. Sennilega er best að leggja léttu og þunnu æfingaskónum og velja stærri hlaupaskó með grófum botni. Þunnir léttir skór eru frábærir á sumrin en í þeim er oft gagnsætt efni sem loftar mikið. Maður blotnar um leið í gegn og verður skítkalt.

Hanskar. Verið í hönskum eða vettlingum. Sama hversu vel klædd þið eruð verðið þið hálf drusluleg í kuldanum án vettlinga þar sem líkaminn bregst við kulda með því að reyna að halda hita á búknum og helstu líffærum. Reynið að velja vettlinga sem hrinda frá vatni. Íslenskir lopavettlingar hafa reynst mörgum vel.

Höfuðfat. Verið með húfu. Það ætti ekki að þurfa segja fólki þetta! Við missum allt að 80% af hitanum frá höfðinu og því er nauðsynlegt að hafa eitthvað á hausnum.

Gormar eða mannbroddar. Mikið úrval er til af allskyns gormum og mannbroddum sem gera manni kleift að hlaupa eða ganga í flestum færum. Það er dýrt og vont að brjóta sig og því ætti maður ekki að sjá eftir nokkrum þúsundköllum í svona græjur.

Höfuðljós og enduskin. Myrkrið getur verið erfitt og það er ómögulegt að sjá ekki fram fyrir fæturnar á sér. Til eru frábær létt höfuðljós sem auðvelda manni mikið auk þess sem maður verður áberandi í umferðinni. Endurskinsvesti, borðar og fleira eru einnig tilvalinn búnaður.

Styttið skrefin. Hlaupið hægar og styttið skrefin. Þannig sparið þið bæði orku og minnkið líkur á að fljúga á hausinn í hálku. Stundum þarf maður líka að fara örlítið hægar en maður hefði viljað.

Vindátt. Byrjið á því að hlaupa upp í vindinn. Með vindinn í bakið á heimleiðinni eru minni líkur á að manni verði kalt.

Offroad. Hlaupið utanvegar eða á slóðum. Ef ófærð er ekki mikil getur verið frábært að hlaupa á slóðum og stígum, t.d í Dimmuborgum. Með náttúruna í öllu sínu veldi gleymir maður þreytu og amstri hversdagsins.

Vatn. Drekkið vatn! Þó það sé kalt þá þurfum við á vökva að halda. Gott er að drekka vel síðustu klukkutímana fyrir hlaup eða göngu. Takið líka með vökva ef þið ætlið mjög langt. Oft er miðað við að taka með sér vökva í lengri hlaup en 10 km. en þetta er auðvitað mjög persónubundið.

Astmi. Ef þið eruð viðvæm í hálsi eða hafið þjáðst af astma skuluð þið fara varlega í frostinu og prófa ykkur áfram. Lengi vel var talið að það væri óhollt að hlaupa í frosti en það er fátt sem bendir til þess að það sé nokkuð til í því. Það er samt sennilega best að taka því frekar rólega þegar frostið er hvað mest.

Herramenn ættu að passa á sér stellið. Flestar vetrarhlaupabuxur fyrir karlmenn eru með þykkra svæði í 
klofinu til að passa upp á besta vininn. Ef þær eru það ekki ættu menn að finna þykkar nærbuxur eða gera aðrar ráðstafanir. Þetta hljómar eins og jók en er það ekki.

No comments:

Post a Comment