Tuesday, January 29, 2013

Frábært gönguskíðanámskeið að baki

Steina og Sæmi
Gönguskíðanámskeiðið sem fram fór um helgina heppnaðist í alla staði vel og mæting var frábær. Alls mættu 30 manns, bæði börn og fullorðnir. Það er ljóst að mikil vakning er í gönguskíðamennskunni um land allt. Það mætti kannski segja að tími sé kominn til að Mývetningar fari að láta til sín taka í skíðagöngunni aftur, enda annálaðir göngugarpar fyrr á árum. Nú er mikilvægt að fylgja þessu eftir með fleiri námskeiðum og uppákomum. Raddir voru uppi um að stofnuð yrði gönguskíðadeild innan Mývetnings.

Kennari á námskeiðinu var Sigurgeir Stefánsson frá Húsavík og honum til aðstoðar var Skúli í Hólmum. Byrjað var á að fara yfir helstu atriði sem ber að hafa í huga við val á gönguskíðum og búnaði en einnig fjallað aðeins um tæknileg atriði. Í kjölfarið var keyrt út að Hlíðarrétt þar sem verklega kennslan fór fram. Þar sýndu leiðbeinendur hvernig ætti að bera sig að og leiðbeindu fólki svo í kjölfarið. Fólk gekk hring eftir hring og var mál manna að miklar framfarir væru hjá flestum á stuttum tíma. Kennarar fullyrtu að margir færu létt með 20 km í Orkugöngunni nú í apríl og inn á milli væri fólk sem ætti að geta æft sig upp í 60 kílómetrana á þessum rúmu 2 mánuðum sem eru til stefnu.

En við látum þetta gott heita í bili og bendum á myndaalbúm þar sem hægt er að skoða nokkrar myndir frá námskeiðinu. Að lokum viljum við þakka Björgunarsveitinni Stefáni sérstaklega fyrir hjálpina við að gera spor  fyrir okkur.

Sigurgeir spjallar við fólkið

Fólk að verða tilbúið í gönguna
Kveðja, Forstöðumaður

No comments:

Post a Comment